Axel Bóasson, kylfingur frá Golfklúbbnum Keili, var undir lok síðasta árs kjörinn íþróttamaður Hafnarfjarðar árið 2018. Axel er einn af bestu kylfingum landsins og er á þriðja ári sem atvinnumaður. Hann er Íslandsmeistari og stigameistari karla á árinu. Hann sigraði á Evrópumóti atvinnumanna í blönduðum liðum ásamt Birgi Leif, Valdísi og Ólafíu á Gleneagles í Skotlandi. Axel varð einnig í öðru sæti liða í tvímenningi á Evrópukeppni atvinnumanna ásamt Birgi Leif. Ofan á þetta allt var Axel í landsliði ársins 2018.

Axel, með hljóðnemann, ásamt félögum sínum í landsliðinu.
Axel sagði í stuttu samtali við Fjarðarpóstinn að titillinn íþróttamaður Hafnarfjarðar hafi verið gríðarlegur heiður fyrir hann. „Ég mjög stoltur að fá þennan titil í ár og ég held að Golfklúbburinn Keilir sé sem íþróttarfélag stolt líka að hafa fengið þennan titil í ár. Þetta eflir líka undir afreksstarfið hjá okkur og hvetur fleiri krakka að koma að æfa golf hjá félaginu.“ Aðspurður um stærsta markmið sitt á nýju ári segir Axel vera að komast í gegnum úrtökumotið fyrir Evrópumótaröðina. „Halda áfram að vera duglegur æfa og sýna þolinmæði.“

Axel á golfvellinum í Eyjum í sumar. Mynd/Golf.is
Forsíðumynd/OBÞ