Hafnfirðingurinn Helga Birna Gunnarsdóttir, fyrrum þroskaþjálfi, varð áttræð 20. nóvember síðastliðinn. „Grímuklæddir“ félagar hennar í Þroskaþjálfafélagi Íslands komu henni skemmtilega á óvart með „dyrabjölluati“ og söng við heimili hennar að Lækjarkinn 8 á afmælisdaginn.

Eins og sést á myndunum var Helga Birna steinhissa á umstanginu en afar glöð og þakklát. Hún hafði sjálf á orði að hún ætti hálf erfitt með tal vegna þess hversu hrærð hún var. Eftir að sjálfur afmælissöngurinn hafði verið sunginn hóf hópurinn upp raust sína og söng sjálfa Maístjörnuna, enda hefur Helga Birna verið mikil baráttukona alla tíð. Einnig voru viðstaddir nokkrir af hennar nánustu til að samfagna og að sjálfsögðu fanga andartökin á nútímalegan og rafrænan hátt. 

Á nýarsdag árið 2013 sæmdi þáverandi forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Helgu Birnu riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu fatlaðs fólks, menntunar og félagsmála þroskaþjálfa.  

Meðfylgjandi myndir tók Eva Ágústa Aradóttir.