Það er vel við hæfi að líta yfir farinn veg á þessum síðasta degi ársins. Um leið og ég óska okkur öllum gleðilegs árs 2020, vil ég þakka fyrir góð samskipti og samvinnu á árinu 2019 og hlakka til áframhaldandi samstarfs á nýju ári.
Nú hef ég setið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar og hef gegnt embætti formanns bæjarráðs í tæp 2 ár. Ég er fullur þakklætis fyrir það tækifæri að starfa fyrir bæjarbúa. Í störfum mínum fyrir Hafnarfjarðarbæ hef ég reynt að temja mér að hlusta og sýna auðmýkt. Það mikilvægasta í þessu öllu saman er þó að vera heiðarlegur, einlægur og sannur í því sem við gerum.
Látum okkur þykja vænt um hvert annað
Við upplifum öll ýmislegt á lífsins leið; bæði gott og slæmt. Oft hlutir eða atburðir sem móta og gera okkur að þeim einstaklingum sem við erum. Það er því mikilvægt að nýta tímann til að læra og gera betur í dag en í gær. Sem ungur maður er andleg heilsa og heilbrigði ungra karlmanna málefni sem er mér mjög hugleikið. Við sem samfélag þurfum að hjálpa ungum mönnum í að styrkja sig og að tjá tilfinningar sínar. Við sjáum það alls staðar í kringum okkur að við erum kannski ekkert sérstaklega góðir í því að segja frá því hvernig okkur líður. Nýverið fór Hafnarfjarðarbær í samstarf við Kara Connect. Það er þjónusta í ungmennahúsi er varðar aðgengi 16-18 ára ungmenna að sálfræðiþjónustu. Þar er um að ræða tilraunverkefni þar sem markmiðið er að bæta og tryggja aðgengi ungmenna að sálfræðingum og færa þessa mikilvægu þjónustu nær þeim.
Í lagi Bubba Morthens segir; „Augun þín brosa en hjartað er að gráta.“
Þetta er setning sem ég persónulega hef tengt sérstaklega við. Þú stendur keikur, berð þig vel, ert sterkur og brosir en hjartað grætur. Fyrir því geta verið ýmsar ástæður.
Tölum saman, hlustum og látum okkur almennt þykja vænt um hvert annað.
Fjölskyldur í forgang – íþróttir og menning blómstrar í Hafnarfirði
Þegar horft er til baka yfir árið 2019 má sjá að ýmsu var áorkað, margt gerðist og sumt sem við reiknuðum síður með að myndi gerast. Miklar hræringar í efnahagslífinu hafa haft áhrif á stöðu sveitarfélaga og þar er Hafnarfjörður ekki undanskilinn. Þrátt fyrir það gengur reksturinn vel og fjárhagurinn er traustur. Markmið okkar var að sýna ábyrgð í rekstri og létta undir með fjölskyldufólki í Hafnarfirði. Ég veit að eftir því er tekið og ég er þakklátur ykkur fyrir öll skilaboðin og áframhaldandi hvatningu þess efnis. Það segir mér og okkur, svo ekki verði um villst, að við erum að gera vel.
Við Hafnfirðingar vorum líka glöð og stolt af árangri íþróttafólksins okkar sem hefur staðið sig afburðavel á árinu; öllum Íslands-, bikar og Norðurlandameisturum, öllum félögum okkar og afreksfólki. Þórdís Eva Steinsdóttir úr FH var kjörin íþróttakona Hafnarfjarðar og Anton Sveinn Mckee úr SH var kjörinn íþróttakarl Hafnarfjarðar. Sara Björk Gunnarsdóttir, Aron Pálmarsson og Gylfi Sigurðsson eru svo m.a. nöfn sem við öll þekkjum og eru að standa sig vel á alþjóðavettvangi. Við erum stolt af öllu þessu öfluga fólki á hverjum degi.
Allt eru þetta einstaklingar sem eru, eða hafa verið, félagsmenn í félögum hér í Hafnarfirði. Félög sem vinna gríðarlega mikilvægt starf í okkar samfélagi og eru svo mikilvæg m.a. út frá lýðheilsu og forvörnum. Auk þess sem samkennd og félagsauður samfélagsins okkar eykst með tilveru þeirra.
Menningarlífið í Hafnarfirði blómstrar um þessar mundir. Bæjarbíó, Hafnarborg, Leikfélag Hafnarfjarðar og Gaflaraleikhúsið sýna að öflugt menningarstarf getur blómstrað annars staðar en í miðborg Reykjavíkur. Við erum hreykin og glöð með okkar öfluga menningarstarf sem við munum halda áfram að styðja vel við. Fjölmargir hátíðar- og menningarviðburðir hafa fest sig í sessi hér í Hafnarfirði og skapa góðan bæjarbrag. Þar má nefna Bjarta daga og Heima-hátíðina, Víkingahátíðina, Hjarta Hafnarfjarðar og Jólaþorpið okkar fræga. Í þessu er mikill samfélagslegur auður sem við þurfum að sammælast um að hlúa að, styrkja og treysta enn frekar.
Gleðilegt ár
Ég hef trú á því að árið 2020 verði gott fyrir okkur öll og við bæði getum og skulum hafa góðar væntingar til þess. Nú fáum við vonandi öll eitt ár í viðbót sem við getum glaðst yfir. Lifum því lifandi, þökkum og njótum hverrar stundar með því fólki sem stendur okkur næst.
Gleðilegt ár og takk fyrir samstarfið og samfylgdina á árinu 2019.
Ágúst Bjarni Garðarsson