Langflest mætum við áföllum og förum í gegnum erfið tímabil á lífsleiðinni. Slíkt mótar okkur, hefur áhrif á lífsviðhorf og ýmist styrkir okkur eða beygir. Það hvernig við hugsum og tölum til okkar hefur einnig mikið að segja og Hafnfirðingur mun í þessu og næsta blaði fá álit fólks sem hefur reynslu af því að veita ráð til aukinnar sjálfsþekkingar og draga fram það besta í hverjum og einum. Hér ræðum við við Finn Þ. Gunnþórsson, sjálfstæðan samtalsdáleiðara, viðskiptaráðgjafa og markþjálfa. 

„Það krefst mikils af manni að vera meðvitaður um líðan sína þegar mikið hvílir á manni. Það er ekki hægt að gera eitthvað í eitt skipti fyrir öll því við erum lifandi manneskjur í margbreytilegu lífi. En það er hægt að þjálfa eigið taugakerfi,“ segir Finnur og nefnir þá æfingu að verja fimm mínútum á dag (eða oftar) í að setjast niður og finna hvernig okkur líður án þess að reyna að skilgreina það. Það hafi ekkert með t.d. hugleiðslu að gera. „Það er erfiðara en margur heldur, en viðmiðin breytast smátt og smátt. Við erum oft háð vana og það að líða á einn eða annan hátt getur bara verið vani, en við getum æft okkur í að ráða meira hvar og hvernig við tökumst á við það.“

Finnur nefnir einnig að til þess að geta slakað á þurfi stundum mikla áreynslu, jafnvel meira en við talið er að sé þægilegt eða eðlilegt. „Sumt fólk gengur Jakobsveginn, dansar mikið í 3 til 5 daga eða stundar köld böð til að stilla sig af og ná slökun í kjölfarið. Slíkt hefur hjálpað fólki að finna fyrir sjálfu sér upp á nýtt og þola betur sjokk. Stundum dugar nefnilega ekki að slaka einfaldlega á, heldur reyna vel á til að ná slökuninni.“  

Sköpum eigin hamingju á margan hátt

Finnur nefnir einnig langtíma lýðheilsurannsókn um tengslamyndun sem gerð var á vegum Harvard háskólans þar sem niðurstöður sýndu fram á að undirstaða hamingju liggur í að fólk geti treyst öðrum, afhjúpað sig á öruggan hátt og sé í góðum og uppbyggilegum tengslum, helst í ólíku samhengi. „Ólíkir hópar og aðstæður kalla fram ólíka þætti í okkur og þess vegna skiptir máli að við veljum hvaða fólk við umgöngumst mest, ef kostur er. Þetta hefur allt áhrif á ónæmiskerfið.“

Finnur segir að einnig séu til margar góðar leiðir til að næra eigin hamingju. „Til dæmis að taka eftir því sem gerir lífið fallegra, þrátt fyrir álag og stress og lengja augnablik sem færa okkur hamingju með því að henda öðrum viðarkubb á þann eld. Skapa gott andrúmsloft fyrir sjálfan sig.“ Finnur hvetur jafnframt fólk til þess að æfa sig í að treysta sér til að takast sjálft á við erfiðar tilfinningar (sem hluta af lífinu) eða leita beint til fagaðila, frekar heldur en að bera sig sífellt upp við aðra. „Á hinn bóginn er um að gera að æfa okkur í jákvæðu sjálfstali með því að tala fyrst og fremst við aðra um styrkleika okkar og það sem gengur vel. Það hefur ótrúleg áhrif,“ segir Finnur að lokum. 

 Mynd/OBÞ