Góður nætursvefn eykur lífsgæði, hamingju og framleiðni og er ein mikilvægasta grunnstoð andlegrar og líkamlegrar heilsu. Heilsubærinn Hafnarfjörður býður íbúum og öllum öðrum áhugasömum að eiga saman notalega kvöldstund í Bæjarbíói 16. október næstkomandi. Þar verður m.a. fjallað um leiðir til að öðlast betri nætursvefn. Eitt af þremur yfirmarkmiðum heilsustefnu er að efla vellíðan íbúa og þetta verkefni er liður í heilsueflingu bæjarbúa og vina Hafnarfjarðar í takti heilsustefnu sem sveitarfélagið mótaði árið 2016. Hafnfirðingur ræddi við Dr. Erlu Björnsdóttur, sem mun leiða viðburðinn, en hún er stofnandi fyrirtækisins Betri svefn.

„Svefn er ekki það sama og svefn. Gæði svefns skipta jafn miklu máli og lengd hans,“ segir Erla með áherslu og bætir við að í nútímasamfélagi sé margt sem hafi áhrif á gæði svefns. Meðal þess séu orkudrykkir, sérstaklega meðal ungs fólks. „Þetta er tískubylgja drykkja með miklu koffínmagni og sætuefnum. Þetta er jafnvel þambað í miklu magni því drykkirnir oft bragðgóðir og svalandi. Kaffi yrði sjaldan þambað á sama hátt.“

Þá sé koffín lengi í líkamanum, en helmingunartími koffeins er um sex klukkustundir. „Ég mæli með því að þeir sem eiga við svefnvanda að stríða láti koffíndrykki vera eftir hádegi. Fólk sem fær sér drykki með koffieni t.d. orkudrykki eða Amino energy eins og sumir gera sem æfa seinni partinn eða á kvöldin geta verið með koffein í líkamanum langt fram á nótt. Sumir segjast eiga auðvelt með að sofna þrátt fyrir koffíndrykkju á kvöldin. Þrátt fyrir að folk nái að sogna getur koffínneyslan samt sem áð’ur verið að hafa áhrif á svefngæði og jafnvel dregið úr djúpsvefni.

Rútína og ró 
Íslendingar eru methafar í notkun svefnlyfja, en Erla segir að þau séu einungis skammtímalausn því þau virki bara í 2-4 vikur samfleytt og langtímanotkun geti verið skaðleg. „Þetta er í raun að hluta til kerfislegur vandi, því það er lítil eftirfylgni með hvernig best er að trappa sig niður eftir notkun þeirra. Mörg þessara lyfja breyta náttúrulegu mynstri svefnsins.“

Kvöldstundin í Bæjarbíói verður fjölbreytt og munu eflaust allir geta tengt við eitthvað í erindum þeirra sem þar koma fram sem veita innsýn í ýmsar hliðar svefns. Sjálf mun Erla m.a. fjalla um hvað gerist í líkamanum þegar við sofum og hvers vegna svefn er mikilvægur. „Það er svo margt sem við getum gert sjálf til að bæta svefninn, m.a. með því að skapa reglu og rútínu, fara að sofa á sama tíma og vakna á sama tíma. Snúa ekki sólarhringnum við um helgar og sofa of lengi. Svo skipta kvöldvenjur miklu máli. Þá eigum við að gíra okkur niður, koma öllu í ró, minnka ljósmagn, leggja frá okkur snjalltækin og það sem veldur áreiti. Svo skipta hreyfing, mataræði, sykur- og áfengisneysla máli. Ég kem inn á þetta allt saman og hlakka til,“ segir Erla að lokum.

Viðburðurinn nefnist Svefn er allt sem þarf. Auk Erlu mun tónlistarfólkið Salka Sól og Valdimar Guðmundsson og Mikael Emil Kaaber deila reynslusögum tengdum svefni. Einnig verða með erindi Dr. Erna Sif Arnardóttir, rannsóknasérfræðingur við HR og Landsspítala, Árný Steindóra Steindórsdóttir leikskólastjóri og Mikael Clausen barnalæknir. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Þessi umfjöllun er samstarf.