Stjórn­völd kynntu fyr­ir rúmri viku þriðja aðgerðapakka sinn vegna af­leiðinga kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Í honum felst m.a. að hluta­bóta­leiðin svo­kallaða verði fram­lengd með óbreytt­um hætti út júní og að fyr­ir­tæki sem orðið hafa fyr­ir að lág­marki 75% tekju­falli og sjá fram á áfram­hald­andi tekju­fall geti sótt um stuðning úr rík­is­sjóði vegna greiðslu launa á upp­sagn­ar­fresti. Við leituðum viðbragða hjá Hafnfirðingnum Jóhannesi Þór Skúlasyni, fram­kvæmda­stjóra Sam­taka ferðaþjón­ust­unn­ar.

Jóhannes segir að þessar aðgerðir þýði í raun að fyrirtæki geti horft inn í næstu mánuði og metið hvað sé raunhæft, hvaða leiðir þau geti nýtt og hvað þurfi til að þau lifi af þessa hrakningamánuði fram undan. „Launakostnaðurinn er stærsti kostnaðarliðurinn hjá flestum fyrirtækjum og það er því mikilsvert að hafa fengið lagðan grunn að lausn á þeim vanda.“

Fyrirtækin í bænum losni nú undan mikilli óvissu um hvað taki við eftir næstu mánaðarmót og geti farið að skipuleggja sig og máta sig við leiðir út úr vandanum. „Það skiptir miklu máli fyrir sveitarfélög eins og t.d. Hafnarfjörð að missa ekki atvinnutækifærin, fjárfestinguna og tekjurnar sem ferðaþjónustufyrirtækin hafa byggt upp undanfarin ár í gjaldþrot. Þannig skapast möguleikar til að byggja hraðar upp að nýju og minnka þann kostnað sem slíkt hefur óhjákvæmilega í för með sér, bæði fyrir samfélagið allt og sveitarfélögin. Við sáum til dæmis eftir bankahrunið að grunnskólarnir og önnur grunnþjónusta sveitarfélaganna þurftu að takast á við hrinu vandamála á árunum sem fylgdu. Það þurfum við að takmarka í þetta sinn eins mikið og mögulegt er.“

Jóhannes segir mörg fyrirtæki vera í virðiskeðju ferðaþjónustunnar í Hafnarfirði. Mynd/OBÞ

Mörg fyrirtæki í virðiskeðju ferðaþjónustunnar í Hafnarfirði

Spurður um fjölda fyrirtækja í ferðaþjónustu í Hafnarfirði og möguleg áhrif á þau segir Jóhannes að í bænum starfi ýmis ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa í Hafnarfirði, bæði lítil og meðalstór. „Til dæmis fyrirtæki sem bjóða ýmsa upplifun fyrir litla hópa ferðamanna í bænum sjálfum, gististaðir og veitingahús, hópferðafyrirtæki, bílaleigur og afþreyingarfyrirtæki. Mörg þessara fyrirtækja veita fjölda fólks atvinnu og skila mikilvægum tekjum í sjóði sveitarfélagsins, þau bæta bæjarbraginn og leggja öll sitt af mörkum til að byggja líflegt og sterkt sveitarfélag,“ segir Jóhannes. Afleiðingarnar af Covid-19 faraldrinum á þessi fyrirtæki séu skelfilegar, þau tapi tekjum sínum nærri 100% á mjög löngu tímabili framundan og það væri mikið áfall fyrir bæinn ef þau hyrfu af sjónarsviðinu vegna þess.

„Það má heldur ekki gleyma því að fjöldi fólks og fyrirtækja sem eru ekki í beinum samskiptum við ferðamenn eða teljast ferðaþjónustufyrirtæki eru samt beintengd inn í virðiskeðju ferðajónustunnar, veita ferðaþjónustufyrirtækjum þjónustu, selja þeim vörur og hráefni o.s.frv. Slík starfsemi fær einnig á sig mikið högg núna. Allt hefur það svo áhrif á bæði sjóði bæjarins og möguleika á uppbyggingu atvinnulífs og þjónustu í bænum og þar með á líf okkar bæjarbúa á einn eða annan hátt,“ segir Jóhannes.  

Myndir/OBÞ