Svala Björgvinsdóttir, söngkonan og lagahöfundurinn með hafnfirsku ræturnar, heldur tónleikana Þá og nú í Bæjarbíói 5. apríl nk. þar sem hún leiðir áhorfendur í gegnum langan feril sinn og flytur brot af því besta sem hún hefur gefið út í tímans rás. Svala er flutt aftur til Íslands og leitar að leiguíbúð í Hafnarfirði.

Það er nóg að gera hjá Svölu þessa dagana, því auk þess að undirbúa tónleikana í Bæjarbíói er hún að semja efni fyrir nýja plötu sem kemur út í sumar, en Svala skrifaði undir dreifingarsamning hjá Sony DK árið 2018. „Ólíkt því sem ég hef gefið út í langan tíma verður efni þessarar plötu á íslensku,“ segir Svala stolt, en henni líður mjög vel með að vera flutt aftur til landsins eftir langa dvöl í Los Angeles. Á tónleikunum kemur Svala fram með nýrri hljómsveit, sem skipuð er þeim Bjarka Ómarssyni, Jóni Val, Hálfdáni Árnasyni og Kristófer Nökkva Sigurðssyni. Hún mun einnig fá góða gesti með sér á svið. „Pabbi verður að sjálfsögðu einn þeirra og ýmsir aðrir sem munu gera þetta kvöld ógleymanlegt með mér,“ segir Svala brosandi.

Myndir af Svölu: Saga Sigurðardóttir.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum gekk Svala í gegnum skilnað á síðasta ári eftir 15 ára samband og fluttist í kjölfarið til Íslands og býr nú í Reykjavík með kærastanum Guðmundi Gauta Sigurðarsyni, sem alltaf er kallaður Gauti, og hvolpinum Sósu. „Nýja platan verður mjög persónuleg því með henni geri ég upp líf mitt og þessi kaflaskil, eins og margir listamenn gera í sinni sköpun. Allt sem ég geri kemur frá hjartanu.“ Svölu og Gauta langar mikið til að flytja til Hafnarfjarðar. „Hér er allt svo fallegt, margt í gangi og blómstandi menning, sem er mjög aðlaðandi. Palli í Bæjarbíói hefur verið að gera ótrúlega hluti fyrir tónlistarlífið hér og margir sem vilja sækja viðburði þar. Ég á alltaf sterkar rætur hér þótt ég hafi um tíma alist upp á Seltjarnarnesi, þaðan sem móðir mín er. Pabbi er hins vegar Hafnfirðingur í gegn og mig langar að búa hér nær þeim,“ segir Svala að lokum.

Hægt er að nálgast miða á tónleikana hér. 
Hér er Instagram síða Svölu.