Gleði og eftirvænting ríktu í Hafnarfirði í dag þegar Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, undirrituðu samstarfssamning. Með samningnum hefur Hafnarfjarðarbær vinnu við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stefnir bæjarfélagið að því að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag UNICEF á Íslandi. Með undirrituninni í dag skuldbinda fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar sig til þess að setja upp „barnaréttindagleraugun“ þegar verk- og ákvarðanaferli eru skoðuð og að forsendur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna gangi sem rauður þráður í gegnum þjónustu sveitarfélagsins.

Handsölun samningsins. Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

„Þetta er mjög gleðilegt og jákvætt skref í þá átt að byggja upp breiðfylkingu sveitarfélaga á Íslandi sem láta sér mannréttindi barna varða, með Barnasáttmálann að leiðarljósi. Það hefur verið mikil eftirspurn frá sveitarfélögum landsins um stuðning við innleiðingu sáttmálans og við hjá UNICEF á Íslandi viljum gera það sem í okkar valdi stendur til að svara þeirri eftirspurn, “ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. „Hafnarfjarðarbær er öflugt sveitarfélag sem sinnir þjónustu við stóran og fjölbreyttan hóp barna, við bindum miklar vonir við að samstarfið og hlökkum til að vinna með starfsmönnum og kjörnum fulltrúum bæjarins“, bætir hann við.

„Börn eru í forgrunni hjá Hafnarfjarðarbæ og með þessum samning við UNICEF á Íslandi viljum við færa þá áherslu yfir í orð og ferla. Barnasáttmálinn er og verður okkar viðmið og rauður þráður í þjónustunni gagnvart börnum og fjölskyldum í bænum. Það þarf heilt þorp til að ala upp barn og þar spilar sveitarfélagið stórt hlutverk. Við viljum skapa samfélag þar sem börnum á öllum aldri líður vel og fái notið persónulegrar þjónustu, hvatningar og stuðnings í gegnum sín uppvaxtarár. Ég hlakka til samstarfsins og þess að leggja enn frekar línurnar í þessum málaflokki“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Sveitarfélög  órjúfanlegur þáttur í innleiðingu Barnasáttmálans

Hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum. Hafnarfjarðarbær verður þriðja sveitarfélagið til að nýta sér líkanið en Akureyri og Kópavogur eru einnig þátttakendur í verkefninu.

Í kjölfar þess að Alþingi lögfesti Barnasáttmálann í febrúar 2013 hafa skapast umræður um hlutverk og ábyrgð íslenskra sveitarfélaga við innleiðingu sáttmálans.  Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og umboðsmaður barna hafa bent á að sveitarfélög séu órjúfanlegur þáttur í innleiðingu hans. Þótt ríkisvaldið beri formlega ábyrgð á að uppfylla Barnasáttmálann verður hann aldrei innleiddur nema í samstarfi við sveitarfélögin. Það eru sveitarfélögin sem annast stærstan hluta þeirrar þjónustu sem hefur bein áhrif á daglegt líf barna.

Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna

Að sveitarfélag innleiði Barnasáttmálann þýðir að það samþykki að nota sáttmálann sem viðmið í starfi sínu og að forsendur hans gangi sem rauður þráður í gegnum þjónustu þess. Líkja má innleiðingunni við að starfsmenn og kjörnir fulltrúar sveitarfélagsins setji upp „barnaréttindagleraugu“ og rýni og skoði verk- og ákvarðanaferla með hliðsjón af sáttmálanum. Barnasáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna. Ferlið við að gerast barnvænt sveitarfélag krefst pólitískrar skuldbindingar, sem er grundvöllurinn fyrir innleiðingu Barnasáttmálans í sveitarfélaginu, ásamt samræmdum aðgerðum þvert á öll svið sveitarfélagsins.

Innleiðingarlíkan og viðurkenning

Innleiðingarlíkanið barnvæn sveitarfélög er aðgengilegt á vefsíðunni www.barnvaensveitarfelog.is og geta áhugasamir einstaklingar, kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga nálgast þar allar nauðsynlegar upplýsingar um innleiðingu Barnasáttmálans. Sveitarfélög sem hafa áhuga á að hefja markvisst ferli við innleiðingu sáttmálans geta einnig skráð sig til þátttöku á vefsíðunni.  Innleiðingarferlið tekur tvö ár og skiptist í 8 skref. Að því loknu geta sveitarfélögin sótt um viðurkenningu frá UNICEF sem barnvæn sveitarfélög.  Viðurkenningin er háð því að starfsfólk UNICEF meti sem svo að innleiðingin hafi verið réttindum barna í sveitarfélaginu til framdráttar og unnið hafi verið eftir hugmyndafræði líkansins. Til að viðhalda viðurkenningunni þarf sveitarfélag að halda innleiðingunni áfram, setja sér ný markmið og óska eftir nýju mati að þremur árum liðnum.

Um UNICEF:

UNICEF (Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna) hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum. Við berjumst fyrir réttindum barna á heimsvísu og sinnum bæði langtímauppbyggingu og neyðaraðstoð. UNICEF treystir eingöngu á frjáls framlög og hefur að leiðarljósi þá bjargföstu trú að öll heimsins börn eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd. Við erum á vettvangi í yfir 190 löndum og leggjum áherslu á að ná til allra barna – hvar sem þau eru.

Fylgist með okkur á www.unicef.is og www.facebook.com/unicefisland