Ragnar Már Jónsson hefur lengst af búið í Áslandinu hér í bæ og var meðal nemenda í fyrstu árgöngum í Áslandsskóla. Ragnar er saxafónleikari, kennir við TH og hefur lengi verið í Lúðrasveit Hafnarfjarðar. Hann er að ljúka BS námi í ferðamálafræði og í lokaverkefni sínu langaði hann að kanna hvað íbúum Hafnarfjarðar finnst um bæjarmenninguna. Við hittum Ragnar til að fræðast meira um þetta. 

„Í raun mætti segja að ég brenni fyrir menningarstarf, þá sérstaklega í Hafnarfirði. Ég hef hlotið menningastyrki hjá bænum, spilað djass á veitingahúsum bæjarins og er því frekar vel inni í menningunni hér og verið hluti af henni sjálfur. Mig langaði í tengslum við BS verkefnið mitt að kanna hvað íbúum finnst um það sem boðið er upp á tengslum við menningu og listir í bænum, hvað er vel heppnað og hvað mætti betur fara,“ segir Ragnar Már. Hann útbjó spurninglista og setti könnun á fjölmenna Hafnfirska hópa á Facebook. „Andri Ómarsson, viðburðastjóri Hafnarfjarðarbæjar, frétti af þessu og hringdi í mig og vildi vekja athygli á þessu á síðu bæjarins líka. Ég fékk svör frá um 300 þátttakendum sem ég vann svo úr og setti upp. Þegar verkefnið var tilbúið sendi ég niðurstöðurnar á Andra og mér bauðst að kynna þetta í lifandi fyrirlestri fyrir menningarmálanefnd Hafnarfjarðarbæjar fyrir skömmu sem var mjög skemmtilegt.“

Elsta fólkið er ánægðast með menninguna í Hafnarfirði. Mynd frá Hrafnistu/OBÞ

Elsta fólkið ánægðast, unga fólkið vill meira
Niðurstöður könnunar Ragnars túlkar hann á þann hátt að þátttakendum fannst menningarlífið yfir höfuð vera gott í Hafnarfirði og hafi það eflst mikið undanfarin ár. „Áhugaverðast var að elsta fólkið var ánægðast og fannst margt fjölbreytt í boði á söfnunum og mikið af viðburðum, t.d. hádegistónleikar í Hafnarborg. Unga fólkið vildi hins vegar sjá meiri innspýtingu, sérstaklega er varðar tónlist; meira framboð af viðburðum sem höfðar til þeirra. Það eru svo fáir staðir aðrir en Bæjarbíó þar sem tónlistarfólk treður upp og það er ekki mikið verið að spila Hip Hop eða RnB sem er “in” í dag. Þetta var mikið rætt á kynningunni minni hjá menningarmálanefnd. Hvað mætti gera meira fyrir 18-30 ára aldurshópinn. Svo mætti menningartengd ferðaþjónusta einnig aukast og fleiri gestir heimsækja bæinn. Það liggja mikil tækifæri til þess í gegnum öflugt menningarstarf,“ segir Ragnar og bætir við að komið hafi fram að fleiri en færri hafi viljað fá fleiri ferðamenn í bæinn.

Unga fólkið vill meira fyrir sinn aldurshóp. Mynd/Óttar Geirsson.

„Að mati þátttakenda hefur Hafnarfjörður svo náð að halda heimilislegu yfirbragði þrátt fyrir eflingu og fjölbreytni í verslun og þjónustu. Ég vona að verkefnið mitt veki einnig áhuga á hvernig hægt er að móta og bæta nýja menningarstefnu, sem hefur ekki verið endurskoðuð síðan 2004. Bæjarbúar vilja hafa meira um þetta að segja í dag,“ 

Viðburðastjórnun er meðal þess sem heillar Ragnar Má. Mynd úr Bæjarbíó, helsta viðburðastað Hafnfirðinga. Mynd/Bæjarbíó

Háskólinn var plan B 

En hvað ætlar Ragnar að gera núna eftir nám, þegar ferðaþjónustan er í lamasessi í landinu? Hann hlær og svarar: „Ég sá alltaf fyrir mér að starfa meira við eitthvað menningartengt þ.e. skipulag, stefnumótun og viðburðastjórnun. Svo langar mig að fara í áframhaldandi nám í einhverju því tengdu. Ég kenndi í tónlistarskólanum í vetur og hef mjög gaman af því. Draumurinn minn væri í raun að kenna á saxafón, vinna við menningartengd verkefni og vera einnig það þekktur tónlistarmaður innan bransans að ég gæti lifað vel á því þó það sé erfitt. Þess vegna fór ég nú í Háskóla, plan B,” segir Ragnar að lokum. 

Viðtal þetta birtist fyrst í tölublaði Hafnfirðings 1. júlí sl.