Hafnfirðingurinn Eva Bryndís Ágústsdóttir er krafmikil ung kona, fædd árið 2002. Í sumar ætlar hún ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, heldur ganga allan hringveginn, auk nokkurra vega utan hans. Við vitum ekki betur en að Eva Bryndís verði bæði yngsti Íslendingurinn og einnig fyrsta konan til þess að framkvæma slíkt afrek. Með þessu vill hún safna áheitum fyrir Barnaspítala Hringsins, sem fjölskylda hennar er afar þakklát.

Eva áætlar að leggja í hann um miðjan júní og ljúka göngunni í byrjun ágúst. Mynd/OBÞ.
Eins og gefur að skilja er svona löng ganga mikil þrekraun fyrir bráðum 17 ára ungling, en Eva er hvergi bangin. „Ég fékk þessa hugmynd í byrjun janúar þegar ég horfði á myndband á netinu um mann sem hafði synt í kringum Bretlandseyjar. Það tók hann um 100 daga! Ég myndi reyndar aldrei hugsa mér að gera svoleiðis vitleysu! En þetta myndband varð mér mikill innblástur og mig langaði að gera eitthvað klikkað sjálf,“ segir Eva hlæjandi og bætir við að hún hafi alltaf verið dugleg að ganga og hreyfa sig. „Ég sá á Google að fáum Íslendingum hefur tekist að ganga hringveginn og rakst á umfjöllun um Reyni Pétur Jóhannsson, sem tókst þetta fyrstum landsmanna árið 1985. Einnig sá ég frétt um félagana Guðbrand Einarsson og Bjarka Birgisson, sem gengu saman hringveginn undir heitinu Haltur leiðir blindan árið 2005. Þetta var svo hvetjandi að ég ákvað að slá til!“

Eva Bryndís með móður sinni, Berglindi Sigurðardóttur. Mynd/OBÞ
Tekur með sér dróna og fleiri tæki
Eva segist gera sér grein fyrir að fyrir svona ferðalag þarf þolinmæði, þrek og tíma, en hún býst þó fyrst og fremst við að þetta verði að miklu leyti skemmtileg upplifun. „Mér finnst líka jákvæð athygli skemmtileg og ég mun leyfa fólki að fylgjast með á Instagram og Snapchat.“ Okkar kona fer ekki tómhent í ferðalagið mikla því hún tekur með sér dróna og annan tæknibúnað því hana langar að gera heimildarmynd eða –þætti um ferðalagið. „Mamma ætlar að fylgja mér alla leið á bílnum og ég geymi dótið mitt þar. Það tók smá tíma að sannfæra foreldra mína um þetta allt saman en það hafðist þó og þau ætla að styðja mig heils hugar og tryggja allt öryggi.“

Eva Bryndís og bróðir hennar, Brynjar Óli.
Eva ætlar samhliða að efna til áheitarsöfnunar til að styrkja Barnaspítala Hringsins. „Ég á hjartveikan bróður og við erum svo þakklát spítalanum og starfsfólkinu þar.“ Eva áætlar að leggja í hann um miðjan júní og ljúka göngunni í byrjun ágúst. „Ég mun að sjálfsögðu byrja í Hafnarfirði og mig langar að fara aðeins út fyrir hringveginn líka, t.d. til Grindavíkur og þaðan til Þorlákshafnar. Ég hef áhuga á að kynna mér og upplifa hvern stað eins og ég get. Ég hef líka mikla trú á sjálfri mér og hef viljann og getuna til að ljúka verkefninu,“ segir Eva afar sannfærandi og full sjálfstrausts. Eva Bryndís með móður sinni, Berglindi Sigurðardóttur.
Snapchat: ArkarinnEva
Instagram: ArkarinnEva