Systurnar Ásdís Björk og Erla Dögg Kristjánsdætur eru uppaldir Hafnfirðingar og búa við Miðvang hér í bæ. Þær eru ólíkar en samrýmdar og finnst fátt betra en að taka göngutúr saman. Einn góðan veðurdag í júní í fyrra (eða eins góðir og þeir urðu það árið!) fékk Ásdís þá hugmynd að þær myndu ganga allar 302 götur í Hafnarfirði á fjórum mánuðum. Við hittum systurnar og fræddumst aðeins meira um þennan gjörning sem er ekkert annað en afrek.
Um páskaleytið í fyrra vildu Ásdís, miðasölustjóri í Hörpu og Erla, félagsráðgjafi, taka sig taki og fara í reglulegar göngur til heilsubótar. Þeim fannst leiðinlegt að mæta á föstum tímum á heilsuræktarstöðvum og vildu finna hreyfingu sem þær ættu auðveldara með að iðka samhliða heimilislífi. Þær eiga báðar fjölskyldur þar sem tvö börn eru á heimilinu. „Vorum líka orðnar þreyttar á sömu gönguleiðinni sem við fórum gjarnan og allt í einu stakk Ásdís upp á því að ganga bara allar götur í bænum,“ segir Erla og viðurkennir að henni hafi strax þótt hugmyndin góð. „Við ætluðum að gefa okkur fjóra mánuði og byrjuðum á að hafa uppi á gatnalista á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Ásdís opnaði excel skjal þar sem hún hélt utan um þetta allt saman og skráði vegalengd, veður, tíma og annað sem skipti máli.
Skráðu allt í excel
Systurnar létu sér ekki nægja að skrásetja þetta allt saman, heldur tóku einnig myndir af öllum skiltum með götunöfnum til sönnunar. Þær viðurkenna að í þessu verkefni hafi þær kynnst heimabænum á nýjan og dýpri hátt. „Við ákváðum að taka þetta alla leið og fórum að öllum bæjarmörkum; gengum til dæmis Krýsuvíkurveg. Við tókum svo að sjálfsögðu öll iðnaðarhverfi bæjarins, þar sem við komumst að því að Helluhverfið er ansi mikið og stórt“ segir Ásdís Björk og bætir við að metnaðurinn hafi verið svo mikill að allir botnlangar voru þræddir fram og til baka og gengið fram hjá inngangi allra húsa bæjarins. „Við vorum alltaf að bíða eftir því að einhver tæki mynd af þessum klikkuðu konum á símann sinn og birti á einhverri íbúasíðunni. Varasamar svartklæddar konur á ferð!“ segir Erla og þær skellihlæja.
Margt sem kom á óvart
Spurðar hvað hafi komið mest á óvart í þessu ferli segja þær m.a. að Teigahverfið hafi verið sérstaklega áhugavert og fallegt. „Við reyndum að skipuleggja okkur fyrirfram leiðir sem tækju vissan tíma en það stóðst ekkert endilega alltaf. Við sáum líka betur hvar fyrirtæki eru staðsett í bænum. Svo voru sumar götur ekki merktar með skilti en eru þó á skrá,“ segir Erla. Teigabyggðin hafi komið mjög á óvart sem áhugaverð byggð og þeim fannst Vellirnir minna á Norðurbæinn. „Hvert hverfi hefur sinn sjarma og alls kyns byggingalist en gamli miðbærinn er alltaf mest sjarmerandi. Í gamla Setberginu, í hlíðinni, voru margir fallegir staðir inni í botnlöngum og mikið næði og fallegt útsýni. Við erum búnar að sjá fullt af húsum í Hafnarfirði sem við gætum hugsað okkur að eiga.“
Versta veðrið var í júlí
Systurnar stefndu á að klára þetta á fjórum mánuðum en það kom 6-7 vikna tímabil um sumarið og haustið þar sem þær komust ekki í göngutúra vegna ferðalaga og veikinda, svo að þær luku göngunni í nóvember. „Þetta þróaðist í mikinn metnað og varð hvetjandi. Við fórum stundum snemma á morgnana eða seint á kvöldin og jafnvel fram á nótt um sumartímann. Sveigjanlegur tími var það þægilegasta við þetta. Við fórum að meðaltali fjórum sinnum í viku og lengsti túrinn var um 11 km,“ segir Ásdís. Erla bætir við að þær hafi líka smátt og smátt tekið eftir því að úthaldið jókst og einnig gönguhraðinn. „Svo er þetta svo gott vegna útiverunnar og súrefnisins og við sækjum dálítið í sjávarloftið. Það var bara einu sinni sem við kláruðum ekki vegna slæms veðurs og það var í júlí! Símarnir okkar lágu undir skemmdum vegna veðurs og við vorum gegnblautar.“ Þá eru þær sammála um að svona ferðir séu mjög losandi og góðar í að rabba og leysa heimsmálin. „Við enduðum síðustu gönguna hér við Breiðvanginn og þá tóku fjölskyldurnar okkar á móti okkur með góðum mat og fagnaðarlátum. Nýja markmiðið er 20 km á viku og svo tökum við kannski Garðabæ og Álftanes“ segja þær að lokum.
Forsíðumynd: Birgir Þór Harðarson
Aðrar myndir frá systrunum og göngugörpunum.