Tónlistar- og bæjarhátíðin Hjarta Hafnarfjarðar fer fram 8. – 14. júlí næstkomandi en hún er haldin þriðja árið í röð og fer fram í miðbæ Hafnarfjarðar, í og við Bæjarbíó. Á opnunarkvöldinu mun fyrsta Stjarna íslenskrar tónlistar verða afhjúpuð á gangstéttinni fyrir framan Bæjarbíó en það er heiðursgjörningur sem þekkist t.d. í Hollywood sem Walk of Fame. Einnig verður Mathiesen torgið, í bakgarði Mathiesen stofu, formlega opnað. Við hittum Einar Bárðarson kynningarstjóra, Guðveigu Lilju Bjarkadóttur verkefnastjóra og Pál Eyjólfsson framkvæmdastjóra í Mathiesen stofunni.

Einar Bárðarson, Páll Eyjólfsson og Guðveig Lilja Bjarkadóttir í bakgarðini Bæjarbíós, þar sem Mathiesen torgið verður.
Með því að vera heil vika verður Hjarta Hafnarfjarðar lengsta tónlistarhátíð á Íslandi. Stjarnan verður afhjúpuð á opnunarkvöldinu á mánudeginum 8. júlí og tónleikar verða samtímis í Bæjarbíói og varpað á 5 metra risa LED skjá í útitjaldi sem staðsett verður á bílaplaninu við Bókasafn Hafnarfjarðar. „Langflestir af þeim sem koma fram tengjast bænum með einum eða öðrum hætti. Við ætlum að bjóða fyrirtækjum í bænum að koma með starfsmannfélögin sín á útisvæðið á góðu verði. Tvö kvöld, opnunarkvöldið 8. júlí og fimmtudaginn 11. júlí, verða opin öllum í boði Hafnarfjarðarbæjar, en hin kvöldin verður selt inn á svæðið og sala er þegar hafin,“ segir Einar. Á opnunarkvöldinu verður „Best of“ tónleikum Björgvins Halldórssonar og hljómsveitar varpað á risa skjáinn.

Hátíðarsvæðið og skipulag þess.
Góð samvinna lykillinn
Páll segir að þessi hátíð sé komin til að vera fyrst og fremst vegna góðrar samvinnu allra sem að henni koma. „Við njótum mikils stuðnings bæjarins að leyfa þetta og fáum fjárhagslegan stuðning. Við eigum í góðu sambandi við veitingastaðina Krydd, VON, Tilveruna, Pylsubarinn og A. Hansen en þau ætla að bjóða gestum upp á veitingar í skúrum á planinu. Súfistinn er svo inni á sjálfu útisvæðinu og viljum við þakka þeim sérstaklega fyrir að taka þátt í þessu með okkur. Rúsínan í pylsuendanum er 40 feta ferða-bjórhöll sem sér þyrstum hátíðargestum fyrir ísköldum á krana allan tímann. Fyrir hagsýna verða seld bjórkort á miklu betra verði en þegar keypt er í stykkjatali.“

Skál í tjaldinu! Mynd frá því í fyrra. Skjárinn verður miklu stærri í ár.
Hvað þarf til að setja upp svona stóra hátíð? „Við erum með margra manna teymi sem setur upp hátíðina og tekur niður á mjög skömmum tíma og mun allt vera frágengið á útisvæði strax að morgni sunnudagsins 14. júlí. Það verða 60-70 listamenn og fylgdarfólk á hátíðinni, öflugt markaðsteymi og hönnuðir auk þess sem starfsfólki Bæjarbíós fjölgar úr 10 í 30 manns þessa viku. Einnig verðum við með öflugt gæsluteymi frá Kristjáni Gunnarssyni (a.k.a Kiddi keðja) sem á að baki margra ára reynslu í gæslu á stórum viðburðum sem þessum og ennþá stærri með fyrirtækið sitt Upp & niður ehf.“ Páll bætir við að þau sem standi að þessu hafi víðtæka reynslu af viðburðahaldi á þann hátt að þeir samlagist samfélaginu hverju sinni og það minnki áhættuna á hverskyns árekstrum. „Samfélagið hér hefur tekið vel á móti þessu. Við viljum þakka bæjaryfirvöldum fyrir að fá leyfi til að loka fyrir bílaumferð frá Linnetsstíg og út Strandgötuna til vesturs. Um miðjan júní verður sent dreifibréf til nágranna þar sem við sýnum teikninguna af svæðinu og þeir eru hvattir til að hringja í mig ef þeir hafa einhverjar spurningar. Við eigum gott samstarf við lögreglu, heilbrigðiseftirlit, eldvarnareftirlit o.s.frv. og aldurstakmarkið er 20 ár. Þetta getur ekki klikkað!“
Hér er hlekkur á miðasölu á tónleikana í Bæjarbíói.
Hér er hlekkur á miðasölu á útisvæðið.