„Vertu alltaf jákvæð“. „Vertu bara þú sjálf“. „Þetta fer allt vel, vittu til“. „Umfram allt, ekki gefast upp“. „Ekki láta óvægna gagnrýni á þig fá“. „Það er kalt á toppnum“. „Þetta segir ekkert um þig; haltu þínu striki“. „Ég sendi þér styrk og knús“.

Síðustu fjögur ár sem ritstjóri og tvö sem útgefandi bæjarblaðs í Hafnarfirði, hef ég ítrekað verið minnt á að ég taki of mikið pláss. Þetta hefur m.a. verið gert undir formerkjum pólitísks aðhalds í blaðamennsku þar sem ýjað er að því að útgáfa mín og fjölmiðill séu pólitískir leppir meirihlutans í Hafnarfirði og ég hlýðinn þjónn hans.

Birtar hafa verið fréttir og leiðarar á vefsíðu og í prentuðum miðli keppinautar míns á hafnfirskum fjölmiðlamarkaði – Fjarðarfréttum. Ég hef aldrei fengið símtal, tölvupóst eða nokkur skilaboð þar sem óskað er eftir svörum fyrir umfjöllun Fjarðarfrétta sem langoftast eru algjörlega einhliða, jafnvel með upphrópunum í fyrirsögnum. Með einbeittum ásetningi er mjög auðvelt að skapa tortryggni í garð keppinautar með slíkum vinnubrögðum sem eiga ekkert skylt við hlutlæga og vandaða blaðamennsku. Lengst af hélt ég að aðferðir hans dæmdu sig sjálfar, en nú er mælirinn fullur.

Ég hef ekki lengur tölu á því hversu oft útgefandi og ritstjóri Fjarðarfrétta hefur á undanförnum þremur til fjórum árum gengið í veg fyrir mig, og ruðst fram fyrir mig þegar ég er á vettvangi að taka myndir. Og já, það eru vitni að dólgshættinum. Á skemmtun í sal í Reykjavík fyrir um ári rauk hann yfir dansgólfið, greip í hendurnar á mér til að dansa við mig í hringdans upp á gamla mátann, þótt hann ætti ekki að vera dansherra minn – og stakk í dansinum upp á samstarfi bæjarmiðlanna okkar. Þannig gætum við skipt kökunni með okkur sem væri auglýsingamarkaðurinn í Hafnarfirði.

Ég á að baki 25 ára víðtæka reynslu á vinnumarkaði, þar af 9 ár í fjölmiðlum, s.s. fréttamennsku í sjónvarpi og útvarpi, blaðamennsku hjá bæjarmiðlum tveggja sveitarfélaga, ritstjórn fjölda rita og hef lagt mig fram við að rækta með mér færni og hæfileika, aflað mér menntunar og reynslu, sýnt metnað, frumkvæði og nýbreytni í efnistökum og fjölmiðlun. Ég geng samt ekki með rannsóknarblaðamann í maganum heldur hef haslað mér völl á öðru viðurkenndu sviði fjölmiðlunar. Ég skal vera Vikan og þá getur keppinautur minn þóst vera Kveikur.

Ég viðhélt ritstjórnarstefnu Fjarðarpóstsins sem mörkuð var af fyrrum ritstjóra árið 2016, þegar bæjarblöðin urðu tvö eftir að núverandi ritstjóri Fjarðarfrétta steig út og stofnaði nýjan miðil. Hann hefur sjálfsagt talið sig taka stærri sneið af auglýsingakökunni með því. Ritstjórnarstefnan mín er yfirlýst á síðu Hafnfirðings; „Hafnfirðingur (áður Fjarðarpósturinn) er bæjarblað Hafnfirðinga og fjallar um málefni Hafnarfjarðar og Hafnfirðinga á jákvæðan hátt. Hafnfirðingur einblínir á umfjöllun um menningu, mannlíf, atvinnu, bæjarbraginn og sögu bæjarins.“ Ég hef fundið fyrir meðbyr vegna þessara efnistaka og oft hefur verið sagt við mig að loksins sé fjölmiðill í Hafnarfirði sem fjallar ekki aðallega um deiliskipulagsmál og pólitískar deilur (sem eru þó velkomnar í blaðið mitt í aðsendum greinum). Áhugasvið blaðamanna eru misjöfn og tilgangur útgefenda bæjarmiðla og hvatir að baki mismunandi. Ritstjórar héraðsfréttamiðla geta haft bein áhrif á umræðu og skoðanir í sveitarfélögum, hvort sem um er að ræða uppbyggjandi eða niðurrífandi. Það er ekki hlutverk allra fjölmiðla að beita pólitísku aðhaldi. Það er líka mikilvægt að benda á það sem vel er gert, skrá sögu sveitarfélaganna og sinna fjölbreyttum samfélagsmálum.

Ég er íslenskufræðingur og tók fjölmiðlafræði sem aukagrein í BA-náminu og er með meistaragráðu í blaða- og fréttamennsku, þar sem m.a. eru kenndar siðareglur. Ég hef lagt mig fram við að fara eftir þeim, m.a. með því að sýna drengskap í samskiptum við starfsfélaga, vanda upplýsingaöflun, úrvinnslu og framsetningu og sýna fyllstu tillitssemi í vandasömum málum.

Um áramótin 2019/2020 hætti eigandi Fjarðarfrétta útgáfu prentmiðils síns með látum og fór mikinn í fjölmiðlum, m.a. vegna þess að ég leyfði mér að taka að mér ritstjórn jólablaðs Hafnarfjarðarbæjar, sem var hugmynd sem kviknaði m.a. hjá mér, bæjarfélaginu til góðs. Og ég hafði alla hæfileika til þess að vinna verkið hratt og vel, þ.á.m. samskipti og góð tengsl við fólk og fyrirtæki í bænum. Eina ástæða þess að ég gaf sjálf út jólablaðið var til að fá sem mestan afslátt á prentun og dreifingu fyrir Hafnarfjarðarbæ. Það var nú allur ásetningurinn.

Einn bæjarstarfsmaður (ekki bæjarfulltrúi!) sagði við mig á síðasta ári: „Ritstjóri Fjarðarfrétta hefur alltaf sett samasem-merki á milli almennra starfsmanna bæjarins annars vegar og bæjarfulltrúa hins vegar. Hann hefur alltaf horft á hlutina þannig að þessir um tvöþúsund starfsmenn bæjarins séu ekki bara að vinna vinnuna sína, heldur að starfa rammpólitískt fyrir ríkjandi meirihluta hverju sinni.“ Ég nefni þetta vegna þess að þegar ég sá fram á að reksturinn myndi ekki lifa af árið 2020, í hinum m.a. mikla viðburðabæ á tímum Covid, þá bar ég undir samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar hvort ekki væri hægt að gera tímabundið samstarfs-samkomulag um umfjöllun um velferðarmál, menntamál, lýðheilsumál, forvarnamál, Covid o.fl. og ég myndi vinna hverja umfjöllun faglega frá grunni en samt yrði greitt fyrir kynninguna sama verði og tilbúin heilsíða kostar. Auk þess merki ég umfjöllunina „samstarf“ með rauðum bakgrunni í prentuðum útgáfum og lét það einnig koma fram í vefútgáfum:

Tvö dæmi; umfjöllun um grunnskólakennslu tímum Covid og um leikskólakennaranám til að fjölga faglærðum leikskólakennurum.

Ritstjóri Fjarðarfrétta gagnrýndi þetta og sagði það pólitíska áróðursherferð yfirvalda, einnig í leiðara og í frétt á sömu síðu. Þetta var mitt frumkvæði, útsjónarsemi mín og sjálfsbjargarviðleitni, til að halda prentmiðli á floti fyrir bæjarbúa og fyrirtækin í bænum og reyna að halda í lífsviðurværi mitt. Það ber engum skylda til að gefa ítrekað vinnu sína eða jafnvel borga með henni. Það segir mest um stöðu einkarekinna miðla að þurfa að fara svona leið til að halda velli.

Samhliða þessu hef ég tekið að mér aukaverkefni og kennslu í grunnskóla, til að halda sjálfri mér á floti.

Ég átti fund með allsherjar- og menntamálanefnd um daginn og fylgdi þar eftir umsögn minni um fjölmiðlafrumvarpið, þar sem ég benti á að stærsti kostnaður í útgáfu minni eru prentun og dreifing. Á fundinum lyfti ég upp tveimur síðustu eintökum af Hafnfirðingi og sagði: „Hér eru tvö átta síðna blöð með um eða yfir 50% auglýsingasíðum. Samt er annað þeirra 100.000 kr í mínus og hitt 200.000 kr í plús. Þá á ég eftir að reikna mér laun og launatengd gjöld. Því fá allir launin sín (fyrir umbrot, prentun og dreifingu) nema ég.“

Ég skulda milljónir í námslán eftir að hafa drifið mig í nám, hátt á fertugsaldri, til að láta þann draum rætast að starfa í fjölmiðlum og prófa ýmis störf til að finna mína fjöl. Tók svo bjartsýn við nánast vonlausum rekstri bæjarmiðils með bros á vör og þeim krafti, von og metnaði til að hafa uppbyggjandi áhrif á samfélagið í bænum sem hefur tekið mér opnum örmum. Ég hef lagt mig fram við að gera tilraunir með fjölbreytta fjölmiðlun, s.s. beinar útsendingar, hlaðvarp, manneskjuleg viðtöl, passað upp á hlutföll kynja og aldurs, og reynt að gefa íþróttum, menningu, listum og ýmsum röddum pláss. Ég hef verið opin fyrir því að gefa fólki tækifæri á að koma sér á framfæri og prófa sig áfram í blaðamennsku og ljósmyndun og hef sjálf haldið fyrirlestra og mætt í fjölmiðla til að gefa af mér og miðla þekkingu eða láta mig málefni varða. M.a. vekja athygli á erfiðri stöðu bæjarmiðla, löngu fyrir Covid.

Samt heldur samkeppnisaðili minn og stuðningsmenn hans því ítrekað fram að mér sé ýmist fjarstýrt af stjórnmálafólki eða búa til einhverjar furðulegar hagsmunatengingar eða fyrirgreiðslupólitík séu að baki mínum hugsjónum. Og þetta eru meira og minna allt karlmenn sem hafa aldrei reynt að kynnast mér eða kalla eftir minni hlið. Ég er ekki týpa sem þrífst í ritdeilum og æsingi, þess vegna hafa þeir fengið frítt spil. Nú síðast hefur fljótfærnisleg yfirsjón af minni hálfu við útfyllingu eyðublaðs um styrk úr ríkissjóði til útgáfunnar orðið að einhverju moldviðri um pólitíska spillingu. Rannsóknarblaðamaðurinn í Hafnarfirði benti á villuna og ég endurgreiði að sjálfsögðu það sem ég fékk fyrir mistök.

Staðan mín í dag er sú að fyrirtæki mitt, Björt útgáfa ehf., getur ekki greitt mér (eina starfsmanninum) laun um þessi mánaðamót og jafnvel ekki næstu, þrátt fyrir útsjónarsemi mína, jákvæðni, meðbyr frá bæjarbúum og hvatningu frá þeim sem þykir vænt um mig. Krafturinn þverr hratt og vonin líka og það bitnar á ástríðunni.

Ég var spurð af þingmanni um daginn hversu miklu máli skiptir fyrir minn rekstur að fá ríkisstyrk. Ég svaraði að fyrir mér væri málið einfalt; ef ekki kemur til ríkisstyrks, þá er ekki rekstrargrundvöllur fyrir útgáfunni.

Góður vinur minn sagði eitt sinn: „Ekki sjá eftir að hafa tekið þetta verkefni að þér. Þú hefur gert það listavel og gefið mikið af þér og gefið Hafnarfirði mikið. Það verður aldrei af þér tekið og verður alltaf hluti af þér.“ Ég er að reyna að beina hugsunum mínum í þessa átt, en það er satt að segja djöfullegt að þurfa líklega að horfa á eftir einhverju fara í súginn sem ég er búin að hafa svo mikið fyrir að taka við, byggja upp, standa með, hafa trú á og fórna tíma, heilsu og langvarandi fjárhagslegu öryggi fyrir.

Ég vil að lokum taka fram að ég hef engan áhuga á ritdeilum vegna þessa pistils. Ég bara gat ekki lengur setið endalaust undir atvinnurógi án þess að bregðast við.

Olga Björt Þórðardóttir
Útgefandi og ritstjóri Hafnfirðings