
Telma Ýr Friðriksdóttir leikskólastjóri með handbókina góðu.
Frá opnun leikskólans Bjarkalundar haustið 2016 hefur starfsfólk leikskólans unnið að þróunarverkefninu Snemmtæk íhlutun í leikskólastarfi undir handleiðslu Ásthildar Bj. Snorradóttur talmeinafræðings. Allt starfsfólk leikskólans hefur tekið þátt í verkefninu og lagt sitt af mörkum við innleiðingu þess og afraksturinn er handbók í snemmtækri úthlutun sem kom formlega út sl. föstudag, glóðvolg beint úr prentsmiðjunni.
Markmiðin með þróunarverkefninu hafa verið margþætt. Í fyrsta lagi var verkefnið fólgið í því að allir kennarar fengu fræðslu um læsi, málörvun, snemmtæka íhlutun og SMT í leikskóla. Einnig var eitt af markmiðunum að setja saman verkferla um hvernig unnið væri með snemmtæka íhlutun, sérstaklega þegar kemur að læsi og skólafærni. Handbókin er góður grunnur fyrir starfsfólk Bjarkalundar sem gefur þeim aukin tækifæri til að samhæfa fagvinnu og festa ákveðin vinnubrögð í sessi. Með því að rýna í vinnubrögðin og setja þau fram hefur öryggi kennara í starfi aukist, ásamt því að vinnubrögð eru orðin samræmdari. Handbókin á að vera lifandi vinnuskjal og verður endurmetin annað hvert skólaár.
Myndir/OBÞ