Diljá Hvannberg þjáðist af kvíða og þunglyndi á unglingsárum og það hjálpaði henni að skrifa sögur. Í sumar gaf hún út sína fyrstu bók, Í skugga baráttunnar, sem fjallar um kynferðisofbeldi á hispurslausan hátt. Fjögur ár eru nú síðan Diljá byrjaði að skrifa söguna en vitundarvakningarnar #konurtala, #eftirkynferðisofbeldi og #metoo voru hvatar til verksins.

Diljá hefur skrifað sögur frá því hún man eftir sér og henni fannst skrifin hjálpa henni með andlega líðan. Hún hélt sögunum þó út af fyrir sig og vildi ekki að neinn læsi þær. Þegar Diljá las sögur kvenna á samfélagsmiðlum í kjölfar fyrrgreindra byltinga, kviknaði innra með henni löngum til að skrifa þessa sögu. Hún valdi svo að sýna bróður sínum hana, því hún treysti honum til að vera hreinskilinn. „Það var stórt skref fyrir mig og hann var alveg yndislegur með allt sem hann hafði að segja um hana. Ég þekki ekki ferli eftir nauðgun af eigin raun; þetta tilfinningalega, að fara inn á Neyðarmóttökuna, kæruferlið og það, en ég þekki því miður of margar konur sem hafa þurft að ganga í gegnum slíkt.“ Bókin er um vinkonur og annarri stúlkunni er nauðgað eftir skemmtun í miðbænum og við taka erfiðar áskoranir innan fjölskyldna stelpnanna sem finnst þær þurfa að fullorðnast helst til of fljótt. 

Hannaði og gaf bókina út sjálf
Við gerð bókarinnar setti Diljá sig í samband við lögreglu og heilbrigðisstarfsfólk á Neyðarmóttöku nauðgana til að afla heimilda. Eftir að hafa fengið synjum frá fjórum bókaforlögum ákvað Diljá að gera bókina sjálf og gefa hana út í gegnum Amazon Kindle Direct Publishing. „Ég gúglaði og skoðaði YouTube myndbönd og setti mig inn í alls kyns hluti sem ég hafði aldrei komið nálægt áður. Það var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt.“ Diljá starfar á Súfistanum en getur vel hugsað sér að skrifa barnabók með vinkonu sinni og stofna með henni bókaforlag undir nafninu Fyrstu skrifin. „Ég er með margar hugmyndir í kollinum sem mig langar að koma í verk.“ Bókin er bæði til á Amazon og í Pennanum Eymundsson. 

Mynd/OBÞ