Eina fasta jólahefð Önnu Jórunnar Ólafsdóttur, framkvæmdastjóra Litlu gæludýrabúðarinnar við Strandgötu, er að baka smákökur sem fjölskyldan borðar á aðventunni og eiginmaður hennar, skipstjórinn Sigurður Ágúst Þórðarson, tekur með sér á sjóinn. Hún segir okkur frá jólahaldi fjölskyldunnar og bestu jólagjöf sem hún hefur gefið.
Anna og Sigurður eiga þrjú börn saman og sitt hvort barnið frá fyrri samböndum, sjö barnabörn og stjúpbarnabörn og eitt stjúplangömmu- og langafabarn. Anna er sjálf er alin upp í stórri fjölskyldu þar sem „allt“ var klárað fyrir jól eins og gjarnan var algengt á þeim tíma. „Ég var fyrst komin í þann gír að baka 20 sortir en núna baka ég nokkrar sem mamma bakaði alltaf og þær eru borðaðar á aðventunni. Það er ekkert stress í jólahaldinu hjá mér þótt ég geri heimili mitt mjög jólalegt. Ég hef lært mikið af krökkunum mínum. Jólin ganga út á samveru og að líða vel. Hún segist þó sem verslunarmaður líka vera vön álagi tengdu vinnunni en það sé alltaf vinalegt. „Það er skemmtilegur tími en ég viðurkenni að ég finn á fólki að það meira stress og pirringur en áður fyrr. Ég gæti t.d. ekki hugsað mér að vinna í stórmarkaði á þessum tíma.“
Anna er löngu orðin vön því að vera stundum ein með börnin um jólin. Þegar hún varð ólétt af öðru barni þeirra hjóna fékk fékk hann þær fréttir út á haf á aðfangadagskvöld í gegnum talstöðina. „Vegna þess hve margir heyrðu samtal okkar var eina sem ég gat sagt: „Svarið er já!“ Fallegasta jólagjöf sem hann hefur fengið frá mér.“ Á þeim tíma var Apótek Hafnarfjarðar við Strandgötuna þar sem núna er Hafnarborg. „Konan sem afgreiddi mig þegar ég kom með óléttuprufuna var svo hamingjusöm að það var eins og að hún væri sjálf að verða amma,“ segir Anna og hlær dátt.
Anna tekur fram að í raun sé erfiðara fyrir þá sem stunda sjómennsku að vera fjarri um jól því fjölskyldunar sem séu a.m.k. saman. „Ég hef fólkið mitt hjá mér og ef Sigurður er úti á sjó þá tekur hann með sér heimabakaðar smákökur í boxi og góða bók. Svo höldum við önnur jól þegar hann kemur í land. Þá koma allir krakkarnir og þá hittir hann alla.“ Hún segir að þau hjónin séu svo heppin með að eiga fullorðin barnabörn sem vilja alltaf koma. „Þau eru ekki í símanum á meðan þau eru hér því við erum eins og ítölsk mafíufjölskylda; allir að borða og spjalla og svaka fjör.“
Myndina tók Olga Björt og til gamans má nefna að skipið sem eiginmaður hennar stýrir er þetta rauða miðjunni í bakgrunninum við Suðurbakka.