Fyrstu samningar fyrir nýja leigutaka í Lífsgæðasetri St. Jósefsspítala voru undirritaðir sl. mánudag, 15. apríl. Á komandi vikum verða kynnt þau fyrirtæki og einstaklingar sem koma til með að hafa aðstöðu á 2.hæð Lífsgæðaseturs St. Jósefspítala að Suðurgötu 41 í Hafnarfirði.
Fyrsta verkefnið nefnist Örmælir og það er frumkvöðlafyrirtæki sem vinnur að því að þróa tæki sem vísindamenn í heilbrigðisrannsóknum geta nýtt sér. Tækið kemur við sögu í krabbameinsrannsóknum og ýmsum rannsóknum á genagöllum sem dæmi. Að fyrirtækinu standa Sunna Björg Skarphéðinsdóttir lífeðlisfræðingur og Einir Guðlaugsson rafmagnsverkfræðingur.

Á meðfylgjandi mynd (af Facebook síðu St. Jó) má sjá Sunnu Björgu, syni hennar Gabríel Arnar og Brynjar Hrafn ásamt Evu Michelsen verkefnastjóra við undirritun í Hjartanu á 2. hæð Lífsgæðaseturs St. Jó.
Forsíðumynd: OBÞ