Fyrri bólusetning við COVID-19 á íbúum Sólvangs hjúkrunarheimilis lauk í dag. Að sögn Ingu Eyþórsdóttur, frakmvæmdastjóra hjúkrunar, gekk bólusetngin hratt og vel fyrir sig og öllum heilsast vel. Seinni bólusetningin verður eftir 19-23 daga.

Pfizer bóluefnið var flutt með lögreglufylgd frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut þar sem það var blandað. Hjúkrunarstjórar Sólvangs sáu um bólusetningar og segir Inga að þeim hafi verið vel fagnað af íbúum þegar þær mættu á einingar hjúkrunarheimilisins til að bólusetja. Bólusetningin hafi gengið hratt og vel og öllum heilsast vel. „Nú munu líða 19-23 dagar þangað til seinni bólusetningin fer fram. Viku síðar er talið að bóluefnið hafi náð fullri virkni,“ segir Inga.

Pfizer er fyrsta bóluefnið sem fengið hefur markaðsleyfi í Evrópu. Fyrstu 10.000 skammtar efnisins komu til landsins í gær og bólusetning hófst í morgun.

Meðfylgjandi myndir fengum við sendar frá Sólvangi hjúkrunarheimili. Á forsíðumynd eru f.v. Dröfn Ágústsdóttir, hjúkrunarstjóri 2. hæðar, Inga Eyþórsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar, Guðlaug Guðmundsdóttir, hjúkrunarstjóri 1. hæðar og Helga Sæunn Sveinbjörnsdóttir, hjúkrunstjóri 3. hæðar.

Bóluefnið kom í lögreglufylgd.
Dröfn og Guðlaug hefjast handa.