Eftir að hafa fræðst um náttúruvernd og umhverfismál hjá kennara sínum, Hrefnu Sif Heiðarsdóttur, og horft á þátt af Hvað höfum við gert?, tók Ólafur Leó Waage, nemandi í 3. bekk í Víðistaðaskóla, málin í sínar hendur og útbjó plakat fyrir samnemendur og fræddi þá sjálfur um þessi brýnu mál.
„Hrefna kennari var að fræða okkur um þessi mál og ég spjallaði líka um þau við mömmu og pabba heima. Svo horfði ég á fyrsta þáttinn af Hvað höfum við gert? og tárin bara runnu bara niður hjá mér og ég vildi gera eitthvað sjálfur í málunum. Þá bjó ég til plakatið og kom með það í skólann,“ segir Ólafur Leó, sem var vel tekið meðal nemenda í 1., 3. og 4. bekk. „Flestir krakkar í 1. bekk spurðu mig allskonar spurninga eða sögðu mér frá. Einn sagði að pabbi hans hefði hent tölvunni sinni í sjóinn.“

Ólafur Leó ásamt kennara sínum, Hrefnu Sif Heiðarsdóttur.
Kominn með aðgerðaáætlun
Spurður um hvað hann vill að gert sé róttækt í þessum málum segir Ólafur Leó einbeittur: „Ég vil að fólk noti miklu minna af plastumbúðum, hendi ekki rusli úti í náttúrunni, verði duglegra að flokka ruslið sitt og labbi eða hjóli í stað þess að nota bílana. Svo má fullorðna fólkið alveg líka mótmæla, ekki bara krakkarnir. Þá geta þeir sannfærst meira og þá gerist eitthvað meira.“ Okkar maður er ofan á þetta kominn með framtíðar-aðgerðaáætlun: „Mig langar að stofna náttúruverndarfyrirtæki sem leiðbeinir fólki og hjálpar til við að verða betra í þessum málum,“ segir Ólafur Leó að lokum, fullur trúar á mannkynið.

Bekkarfélagarnir í kennslustund hjá Hrefnu. Myndir/OBÞ
Umsjónarkennarinn Hrefna er að vonum ánægð með nemanda sinn: „Ólafur Leó er búinn að standa sig mjög vel. Það er umhverfisráð hér í skólanum sem ég held utan um, sem er skipað nemendum og kennurum. Við sjáum um að skólinn standi sig m.a. varðandi flokkun, umgengni og náttúruvernd. Nöfn eru dregin úr hópi þeirra sem vilja vera í ráðinu. Aftur á móti var Ólafi Leó boðið að bætast í hópinn því hann er svo mikill frumkvöðull í umhverfismálum.“