Nýverið undirritaði umhverfisráðherra formlega friðlýsingu háhitasvæðis Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga í samræmi við Rammaáætlun. Er það mikið fagnaðarefni að þetta stórbrotna eldfjallasvæði fái vernd fyrir ásælni orkufyrirtækjanna. Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar að stærð og er stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Brennisteinsfjöll bjóða upp á sannkallaða
jarðfræðiveislu með hlaðborði gosminja af öllu tagi: Tignarlegum eldborgum,
gígum og gígaröðum, hrauntröðum, hrauntjörnum, niðurföllum, hraunfossum,
hraunhellum, opnum jarðskjálftasprungum,
misgengi og öðrum náttúrufyrirbærum.
Oft hefur gosið á sprungurein Brennisteinsfjalla, bæði á forsögulegum og
sögulegum tíma. Hraun hafa runnið niður
af fjöllunum í ýmsar áttir eins og til dæmis má sjá á hinum glæsilegum
hraunfossum sem steypast fram af brúnum fjallsins í Herdísarvík og blasa við
þegar ekið er eftir Suðurstrandaveginum.
Brennisteinsfjöll eru eina háhitasvæðið í vestara gosbeltinu sem ekki
hefur verið rannsakað með tilraunaborunum. Svæðið er því óraskað og fáfarið sem
gerir það einn meira heillandi og eykur náttúruverndargildi þess.

Því miður er það svo að aðgengi að þessari náttúruparadís hefur verið takmarkað til muna með nýlegri lokun á Bláfjallavegi. Þar með fer enginn upp í Brennisteinsfjöll lengur nema leggja á sig tuga kílómetra erfiða göngu. Aðgengi að öðrum vinsælum náttúperlum hefur einnig verið skert með þessari lokun, s.s. að vinsælli gönguleið um Grindaskörð og Kristjánsdalahellum.
Að lokun Bláfjallavegar standa Vegagerðin og
Hafnarfjarðarbær undir yfirskini vatnsverndarsjónarmiða. Þau rök halda hins
vegar engu vatni þegar horft er til þess að sjálfsagt þótti að veita
Landsneti leyfi til að vaða yfir þetta
sama vatnsverndarsvæði með nýja háspennulínu, miklu nær vatnsbólunum heldur en
þessi vegur er.
Hvar voru vatnsverndarsjónarmiðin þá?
Bent hefur verið á, af þeim sem mótmælt hafa lokuninni, að fjöldi annarra vega
liggur um vatnsverndarsvæði Höfuðborgarinnar , vegir sem margir hafa mun meiri umferð heldur en
umræddur Bláfjallavegur. Rökin fyrir þessari lokun er því algjörlega
óskiljanleg og skora ég á bæjarvöld í Hafnarfirði að beita sér fyrir afléttingu
hennar, svo almenningur eigi greiðari leið að þeirri einstöku náttúruperlu sem
nú hefur verið friðlýst í
Brennisteinsfjöllum. Tala nú ekki um þegar verið er að hvetja almenning til að
ferðast innanlands í sumar og umferð hefur snarminnkað við brotthvarf erlendra
ferðamanna.
Ellert Grétarsson,
náttúruunnandi.