Meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks datt allt í einu í hug á dögunum að gott væri að vanda sig við áætlanagerð í stjórnsýslunni. Í ljós kom að deiliskipulagsvinna við Hjallabraut hafði farið hressilega fram úr áætlunum og nam framúrkeyrslan tvöfaldri kostnaðaráætlun. Kostnaðaráætlun var 9.912.400.- kr., en heildarkostnaður vegna vinnunnar var 21.943.945.- kr.
Nú er hringlandinn eins og vörumerki á störfum meirihlutans í skipulags- og byggingarmálum og hefur kostað sitt fyrir útsvarsgreiðendur í Hafnarfirði. En þegar meirihluti Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er farinn að afsaka hringlandann með því að framúrkeyrsla sé eðlileg af því að það þurfi að vanda sig, þá kveður við nýjan tón. Hefur þá hingað til ekki verið gert ráð fyrir vandaðri og ítarlegri vinnu í áætlunargerð á vegum bæjarins í skipulagsmálum?
Það er eðlileg krafa að vandað sé til verka hjá Hafnarfjarðarbæ og að áætlanir geri ráð fyrir því. Einnig að farið sé með fjármuni bæjarfélagsins af ábyrgð. Það er því miður ekki raunin hjá meirihlutanum í vinnu við deiliskipulag Hjallabrautar og þar hefði mátt gera mun betur.
Stefán Már Gunnlaugsson
Fulltrúi Samfylkingarinnar í skipulags- og byggingaráði