Karlalið FH mun halda uppi heiðri Hafnarfjarðar á bikarhelgi HSÍ, sem fram fer 8-9. mars nk. FH mætti Aftureldingu á útivelli í átta liða úrslitum Coca-Cola bikarsins og hafði betur 26-29. Kvennalið Hauka var einnig í eldlínunni en mátti sætta sig við tap gegn Stjörnunni eftir framlengdan leik að Ásvöllum, 22-23.

Sigur FH er ekki síst merkilegur í ljósi þess að fjölmarga sterka leikmenn vantaði í liðið en leikmenn sem ekki hafa verið í stórum hlutverkum stigu upp og kláruðu dæmið. FH komst í 7-1 í upphafi leiks og lagði strax grunninn að sanngjörnum sigri. Birgir Örn Birgisson og Ásbjörn Friðriksson skoruðu báðir sex mörk fyrir FH. Auk FH-inga eru  ÍR, Valur og Fjölnir búin að tryggja sér sæti undanúrslitunum.

Haukakonur áttu í miklu basli með að skora í leiknum gegn Stjörnunni en léku þó afar góða vörn allan tímann. Það dugði því miður ekki til og því er ljóst að Hafnfirðingar eiga aðeins eitt lið í hinni skemmtilegu bikarhelgi í Laugardalshöll. Maria Ines Pereira skoraði sex mörk fyrir Hauka en besti maður liðsins var markvörðurinn Ástríður Glódís Gísladóttir sem varði 20 skot.