Um helgina fór fram sýningin Ég í LitlaGalleý við Strandgötu 19. Sýningin fjallaði líf leikarans Tryggva Rafnssonar þegar hann glímdi við mikið þunglyndi. Hann skrifaði niður líðan sína á sínum dimmustu stundum og prentaði út valda texta sem hann hengdi á veggi gallerýsins og gestir gátu lesið á sýningunni. Eins og fram kom í tilkynningu með opnuninni var eitt meginmarkmið Tryggva með sýningunni að nota eigin rödd til þess að vekja athygli á geðheilbrigðismálum. Tryggvi verður næsti viðmælandi hlaðvarpsins Plássins þar sem hann mun ræða sín mál í einlægni.

Tryggvi ásamt fjölskyldu sinni. Frá vinstri: Ívan Ingi, Þóra Elísabet, Tara Nótt og Tryggvi. Á myndina vantar miðjusoninn Ísak Darra sem var upptekinn við að leika sér við vini sína. Mynd/OBÞ

Fyrir mörgum eru geðheilbrigðismál mikið feimnismál þótt 12 til 15 þúsund manns á Íslandi glími við þunglyndi á hverjum tíma. Tryggvi segir í samtali við Hafnfirðing að fólk skammist sín gjarnan fyrir að eiga í andlegum erfiðleikum. „Ég hef hins vegar þá bjargföstu trú að meira og minna allir gangi einhvern tímann í gegnum andlega erfiðleika í sínu lífi. Við erum öll manneskjur og við finnum til. Við meiðum okkur þegar við dettum og það er vont að brjóta beinin í sér. Við förum til læknis þegar við erum lasin og við förum til sjúkraþjálfara þegar við erum í endurhæfingu. Andleg veikindi eru ekkert öðruvísi! Eini munurinn er sá að þau eru oft algerlega ósýnileg og Covid faraldurinn hefur ekki hjálpað til.“

Frá sýningunni. Mynd/OBÞ

Sama dag og Tryggvi var kominn á sinn versta stað og skutlað á bráðamóttöku geðdeildar var hann í samskiptum við nána vini sem tóku eftir neinu sérstöku. „Þetta er svo ósýnilegur sjúkdómur því maður er svo duglegur að setja upp grímu, meira að segja gagnvart sínum nánustu. Í staðinn bitnar þetta svo bara á þeim sem eiga það minnst skilið,“ segir Tryggvi, sem er sannarlega kominn á góðan stað í dag með hjálp sálfræðings og tímapunkturinn með sýningunni einhvern veginn hárréttur.

„Erum við líkir?“ Mynd/OBÞ

Það vakti mikla athygli þegar einkennisbifreið forseta Íslands ók hægt vistgötuna Strandgötu og staðnæmdist rétt hjá. Út úr bifreiðinni steig svo sjálfur Guðni Th. Jóhannesson og gekk til Tryggva, heilsaði honum og faðmaði vinalega. Bauðstu forsetanum, Tryggvi? „Já ég bara sendi honum skilaboð og hann svaraði að hann myndi líta við. Ég hef alltaf sagt að það er enginn sýning hjá mér nema forsetinn mæti,“ segir Tryggvi og hlær. Hann var fyrstur til að leika Guðna Th. í áramótaskaupi árið 2016 og bætir oft í gamni Th. við sem millinafni, t.d. þegar hann pantar pítsu.

Tryggvi í hlutverki Guðna forseta í skaupinu 2016. Með honum á myndinni er Jón Gnarr sem var einn höfunda skaupsins.

Nokkrir gesta sem mættu á sýninguna þegar ljósmyndari var á staðnum :