Forseti Íslands herra Guðni Th. Jóhannesson og Elíza Reid forsetafrú ætla að taka þátt í Stóra Plokkdeginum 28. apríl næstkomandi. Forsetinn hefur ekki látið sitt eftir liggja þegar kemur að umhverfismálum. Hann er liðtækur plokkari eins og marg oft hefur komið fram en íslendingar hafa marg oft „staðið hann að verki“ þegar hann plokkar í kringum Bessastaði.
Þegar þetta er skrifað hafa Hafnarfjörður, Kópavogur, Reykjavíkurborg og Mosfellsbær ákveðið að styðja við verkefnið og fleiri eru að bætast í bakhjarla átaksins.
Hægt er að slást í hópinn með því að finna hópinn á Facebook undir Plokk á Íslandi og gerast meðlimur.
Plokk á Íslandi stóð fyrir miklum plokkdegi á Degi jarðar í fyrra en þar sem hann lendir á páskum í ár var ákveðið að boða til stóra Plokkdagsins í ár þann 28. apríl næstkomandi. Plokkarar ætla að beina sjónum sínum að Reykjanesbrautinni, Vesturlandsveginum og Suðurlandsveg í ár og taka til hendinni í kringum hana. Reykjanesbrautinni verður skipt upp í svæði og vaktir til að reyna að ná sem mestum árangri. Reykjanesbrautin er heimreið höfuðborgarinnar frá útlöndum og hana aka mörg þúsund erlendra gesta og Íslendinga alla daga ársins. Um leið þverar hún öll stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en það er von plokkara landsins að þau sláist í hópinn og leggi deginum lið með þeim hætti sem þau telja mögulegt.
Á sama tíma og þessi svæði eru þrifin þá vilja Plokkarar um leið minna vegfarendur sem skipta hundruðum ef ekki þúsundum á hverjum klukkutíma, á að allir geta plokkað og allir geta tekið þátt í að gera umhverfið og heiminn betri.
Þannig er hugmyndin að skipta borginni upp í svæði:
Reykjanesbær svæði 1-5. Ræst af planinu hjá Bónus á Fitjum.
Vogar svæði 1-3 ræst við bílastæði brúna undir brautina að Vogum.
Hafnarfjörður svæði 1-3 ræst af bílastæðinu hjá N1 Lækjargötu.
Garðabær svæði 1-2 ræst af bílastæði IKEA.
Kópavogur svæði 1-3 ræst af bílastæði Smáralindar.
Reykjavík Elliðaárdalur og Fossvogs svæði 1-3 ræst af bílastæði Sambíóanna.
Reykjavík – Stórhöfði og Árbær 1-3 ræst af bílastæðinu við Select og Ölgerðina.
Reykjavík – Grafarvogur Grafarholt 1-3 ræst af bílastæðinu hjá Húsasmiðjunni.
Mosfellsbær 1-3 ræst af bílastæðinu við N1.
Plokk á Íslandi leitar að aðilum sem eru tilbúnir í hópstjórn og að því að koma að skipulagi og utanumhaldi.
Öllum er velkomið að vera með og mæta í hluta eða í allan daginn. Þetta er skipulagði hluti dagsins en svo má fólk plokka auðvitað þar sem því sýnist og öll sveitarfélög. Vinnustaðir og hagsmunaaðilar gætu einnig nýtt daginn til vitundarvakningar.
Öll sveitarfélög, félagasamtök, flokkar, mafíur og útskriftarárgangar mega taka þátt, stofna viðburð, tengja Plokk á Íslandi og vera með. Því fleiri, því hreinna!
#plokk19
Leiðbeiningar frá aðstandendum Plokks á Íslandi
1. Klæða sig eftir veðri
2. Finna sér „plokku“ eða tínu
3. Finna sér poka, helst glæra en Sorpa tekur og flokkar úr þeim eða flokka plast í sér pokka og pappa í sér pokka.
4. Velja einn kílómeter og plokka.
5. Plokka milli 10:00 og 16:00.
6. Deila myndunum á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #plokk19 og #hreinsumisland
7. Vera í skýjunum.
Mynd af Guðna: Olga Björt