Hafnarfjarðarbær stendur fyrir fræðslu fyrir foreldra ungra barna með það að markmiði að auka vitund foreldra um mikilvægi málþroska. Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að með því að byrja örvun málþroska snemma er hægt að styrkja undirstöðuþætti læsis og styðja við góðan námsárangur. Þetta verkefni er hluti af læsisstefnu Hafnarfjarðar og unnið í nánu samstarfi við Bókasafn Hafnarfjarðar og heilsugæslustöðvarnar í Hafnarfirði. Við hittum talmeinafræðingana Bjarteyju Sigurðardóttur og Ásthildi Bj. Snorradóttur, frá skrifstofu Mennta- og lýðheilsusviðs.

Taskan og munirnir sem foreldrar fá að gjöf ef þeir koma á fræðslufund um mikilvægi málþroska barna.

Liður í læsisstefnu Hafnarfjarðarbæjar sem hófst formlega árið 2014 var að mæla orðaforða barna við 3 ára aldur í leikskólum í Hafnarfirði. Niðurstöður sýna að orðaforða fer aftur og þar með málþroska. Bjartey segir leikskólana standa sig vel en börnin komi slakari í málþroska inn í leikskólana. „Áður fyrr komu mörg börn ágætlega máli farin í leikskóla við tveggja ára aldur en undantekningar eru á því dag. Börnum eru svo ungum rétt snjalltæki, bæði í bílum og heima fyrir. Það vantar meira samtal og bein samskipti milli foreldra og barna. Við viljum vekja foreldra til vitundar um þetta.“

Mynda síður gagnvirk samskipti með snjalltækjum
Ásthildur segir að einnig sé mikilvægt að bregðast strax við eftir tveggja og hálfs árs skoðun barna hjá heilsugæslustöðvunum, í anda snemmtækrar íhlutunar. „Það er ekki í boði lengur að bíða og sjá til. 18 mánaða börn greinast með einkenni af jafnvel arfgengri lesblindu og seinkun í málþroska þá skiptir máli að grípa inn í með leiðum til aukinnar málörvunar.“ Þá hafi dagforeldrar einnig haft samband því þeir taki eftir slakari málþroska hjá börnum. „Það skiptir svo miklu máli að segja foreldrum satt og hvað hægt er að gera í framhaldinu. Í Hafnarfirði er lögð áhersla á að ekkert barn bíði í dag án íhlutunar eftir þroskamat sem er lagt fyrir á heilsugæslu. Mörg sveitarfélög líta til Hafnarfjarðar í þessum efnum, enda starfar frábært fagfólk hjá bænum.“

Feðginin Agnar og Una Máney njóta þess að lesa saman

Bjartey segir að ný íslensk rannsókn sýni algjöra fylgni á milli orðaforða og lesskilnings barna í 4 til 8. bekk. „Orðaforði byggist upp frá unga aldri og við verðum að hugsa þetta í víðara samhengi. Það er ekkert sjálfsagt að foreldrar viti þetta og margir í hópi yngstu foreldranna hafa alist upp við snjalltæki. Við erum alls ekki að tala á móti snjalltækjum en málþroski getur aldrei orðið góður ef gagnvirk samskipti vantar. Þar eru uppalendur svo mikilvægir, einnig varðandi tengslamyndun og margt annað. Við viljum fræða foreldra og virkja þá til meiri þátttöku. Þeir eru svo sterkur stuðningur barnanna og bera hag þeirra best fyrir brjósti. Við viljum færa þeim verkfærin til þess.“·

Fræðslufundir um mikilvægi málþroska fyrir foreldra 6-24 mánaða barna verða haldnir í lok september og byrjun nóvember. Upplýsingar um staðsetningu og tíma er að finna á hafnarfjordur.is.

Forsíðumynd: Olga Björt. 

Þessi umfjöllun er samstarf.