Fjórir Hafnfirðingar eru meðal tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2019. Samtök íþróttafréttamanna birtu listann í dag. Þetta eru þau Anton Sveinn McKee, Aron Pálmarsson, Gylfi Þór Sigurðsson og Sara Björk Gunnarsdóttir.

Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton Sveinn varð á árinu fyrsti Íslendingurinn, og hingað til sá eini, til að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í Tókýó á næsta ári. Það gerði hann með því að komast í undanúrslit í 200 metra bringusundi á HM í Suður-Kóreu í sumar. Anton Sveinn átti einnig gott mót á EM í 25 metra laug í Glasgow í Skotlandi fyrr í þessum mánuði. Hann var aðeins sjö hundraðshlutum úr sekúndu frá því að komast á verðlaunapall í 200 metra bringusundi þar sem niðurstaðan varð 4. sæti. Þá margbætti Anton Sveinn Íslands- og norðurlandamet á mótinu í Glasgow. 

Þetta er í fyrsta sinn sem Anton Sveinn McKee er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.

Aron Pálmarsson. Mynd/OBÞ.

Aron Pálmarsson, handboltamaður hjá Barcelona á Spáni. Aron varð Spánarmeistari með Barcelona í vor en liðið vann spænsku deildina með miklum yfirburðum. Aron komst jafnframt í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu með Barcelona í vor. Á yfirstandandi leiktíð hefur Aron farið mikinn með Barcelona sem situr í toppsætinu í sínum riðli í Meistaradeildinni. Aron lék vel þegar Ísland komst í milliriðla á HM í Þýskalandi og Danmörku í janúar og þá skoraði hann 33 mörk í sex leikjum í undankeppni EM á árinu þar sem Ísland tryggði sér þátttökurétt í lokakeppninni í janúar.

Þetta er í sjöunda sinn sem Aron Pálmarsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Aron hlaut nafnbótina íþróttamaður ársins árið 2012. Aron var í fyrsta sinn meðal tíu efstu árið 2010, en síðast árið 2016.

Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd af opinberri Facebook síðu Gylfa Þórs.

Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Everton á Englandi. Gylfi Þór skoraði fimm mörk eftir áramót á síðustu leiktíð með Everton sem hafnaði í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Á þessu tímabili hefur Gylfi skorað eitt mark og lagt annað upp fyrir Everton sem situr um miðja deild. Gylfi var í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu og lék hverja einustu mínútu í öllum tíu leikjum liðsins í undankeppni EM. Gylfi skoraði tvö mörk í undankeppninni þar sem Ísland hafnaði í þriðja sæti riðilsins.

Þetta er í níunda sinn sem Gylfi Þór Sigurðsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Gylfi hefur tvisvar hlotið sæmdarheitið íþróttamaður ársins, árin 2013 og 2016. Hann var í fyrsta sinn á meðal tíu efstu árið 2010 og svo allar götur frá 2012. Gylfi hefur aldrei hafnað neðar en í 4. sæti í kjörinu. Þrisvar sinnum hefur hann verið í 2. sæti og tvisvar í 3. sæti.

Sara Björk þegar hún tók við viðurkenningunni í fyrra. Mynd/RÚV.

Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Wolfsburg í Þýskalandi. Sara Björk varð Þýskalandsmeistari með Wolfsburg í vor auk þess að vinna þýsku bikarkeppnina með félaginu. Þetta var þriðja árið í röð sem Sara vinnur tvöfalt með Wolfsburg en hún hefur byrjað yfirstandandi keppnistímabil af miklum krafti. Sara hefur skorað fimm mörk fyrir Wolfsburg sem situr í toppsæti þýsku deildarinnar. Þá er Sara Björk fyrirliði íslenska landsliðsins sem vann alla þrjá leiki sína í undankeppni Evrópumótsins á árinu.

Þetta er í áttunda sinn sem Sara Björk Gunnarsdóttir er meðal tíu efstu í kjörinu. Sara hlaut nafnbótina íþróttamaður ársins í fyrra í fyrsta sinn. Hún var fyrst á topp 10 listanum árið 2011 þegar hún endaði í 4. sæti. Hún hefur svo verið samfleytt á listanum frá og með árinu 2013.

Sara Björk er ein fimm íþróttamanna sem var líka á topp tíu listanum í fyrra. Auk Söru hafa Aron Pálmarsson og Gylfi Þór Sigurðsson áður hlotið heiðurinn, af þeim sem koma til greina í ár. Úrslitin úr kjörinu verða kynnt í beinni útsendingu laugardagskvöldið 28. desember í beinni útsendingu á RÚV. Útsendingin hefst klukkan 19:40.