Eins og undanfarin ár skorar Markaðsstofa Hafnarfjarðar Hafnfirðinga, sem og aðra, á að gera jólainnkaupin í Hafnarfirði. Í bænum er allt til alls þegar kemur að verslun og þjónustu, afar fjölbreyttar og fallegar verslanir sem og veitingastaðir og kaffihús af bestu gerð. Jólainnkaupin eru líka einstaklega heimilisleg því í langflestum tilfellum eru eigendur sjálfir sem taka á móti viðskiptavinum.

Miðbærinn teygir sig allt frá Norðurbakka að Fornubúðum og er fallega skreyttur líkt og undanfarin ár og minnt einnig á spennandi verslanir víðsvegar annars staðar í bænum, s.s. í Hraunum. „Það getur verið ákaflega notalegt og jólalegt að spássera um bæinn, kaupa jólagjafir, fara í Hellisgerði, á skautasvellið eða kíkja í Jólaþorpið um helgar, “ segir Thelma Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar í nýrri frétt á vefsíðu MSH. Hafnfirðingar eru eindregið hvattir til að standa saman í þessum efnum: „Fyrirtækin okkar í heimabyggð ýta undir litríkt og öflugt samfélag og án þeirra viljum við ekki vera. Það er því ákaflega mikilvægt að við stöndum saman og styðjum við hafnfirska verslun og þjónustu.“

Hugmyndalistar

Settur var saman listi yfir hugmyndir að hafnfirskri jólagjöf en þar á meðal eru gjafabréf í heilun, flot eða myndatöku, hafnfirsk pönnukökupanna og fallegar heimilisvörur. Svipaður listi var gerður í fyrra sem vissulega er tilvalið að nota líka. Ef einhverjir eiga ekki heimangengt er margar verslanir sem og veitingastaðir í Hafnarfirði með heimsendingarþjónustu og slíkar upplýsingar eru ýmist á vefsíðum þeirra eða Facebook síðum.

Síðasta helgi Jólaþorpsins verður um næstu helgi. Mynd/Hafnarfjarðarbær
Hellisgerði er heillandi staður til að njóta fyrir eða eftir verslunarferð. Mynd/OBÞ