Undanfarnar vikur og mánuði hefur verið nóg um að vera í undirbúningi fyrir Lífsgæðasetur St. Jó sem hefur aðsetur að Suðurgötu 41 í Hafnarfirði. Undirbúningur hefur staðið yfir í tæp 2 ár eða frá því Hafnarfjarðarbær festi kaup á húsnæðinu sumarið 2017 og lagði upp með að finna nýtt hlutverk fyrir fyrrum St. Jósefsspítala. Tæplega helmingur leigutaka hefur gengið frá undirritun leigusamninga fyrir fyrsta áfanga hússins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fulltrúum lífsgæðasetursins. 

Lífsgæðasetur St. Jó er samfélag sem býður upp á forvarnir, heilsuvernd, snemmtæka íhlutun, fræðslu og skapandi setur. Allir rekstraraðilar eiga það sammerkt að auka lífsgæði sinna skjólstæðinga með áherslu á heilsu, samfélag og sköpun. Grunnur þeirra byggir m.a. á markþjálfun, sálfræðiþjónustu, jóga, nuddi, heilsueflandi þjónustu fyrir eldri borgara, samtals þerapíum og sköpun og þróun á tækjum og tækni fyrir heilbrigðisrannsóknir. Setrið er rekið sem sjálfbær rekstrareining á vegum Hafnarfjarðarbæjar.„Við erum ánægð með að Hafnfirðingar hafi eignast gamla spítalann og að bæjarstjórn hafi tekið þá ákvörðun að gefa byggingunni nýtt líf með fjölbreyttri starfsemi sem mun bæta lífsgæði íbúa Hafnarfjarðar með ýmsum hætti“ segir Eva Michelsen, verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ.

Hér má sjá Evu Michelsen, verkefnastjóra Lífsgæðaseturs og eigendur Sögu – Story House, þær Guðbjörgu Björnsdóttur iðjuþjálfa og Ingibjörgu Valgeirsdóttur jógakennari skrifa undir leigusamning á dögunum. Saga – Story House er lífsgæðafyrirtæki með áherslu á fólk og sögur, fjölbreytta fræðslu, ráðgjöf, heilsueflandi ferðir og lífsgæðavörur. Mynd aðsend.

Fyrstu fyrirtækin flytja inn í sumar

Eins og Fjarðarpósturinn greindi frá um miðjan apríl hafa fyrstu leigutakar þegar undirritað leigusamninga og stefna þeir fyrstu á að flytja inn í sumar, en tæp tvö ár eru síðan undirritaður var samningur um kaup Hafnarfjarðarbæjar á 85% eignarhlut ríkisins í aðalbyggingu St. Jósefsspítala. Fyrir átti Hafnarfjarðarbær 15%. Formleg opnunarhátíð verður í september, kringum 93 ára afmæli gamla spítalans, þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri til að kynnast starfseminni og sjá endurbæturnar á byggingunni. „Á opnunarhátíð verður í anddyri hússins sýning á vegum Byggðasafns Hafnarfjarðar þar sem sögu hússins og St. Jósefssystra, sem byggðu húsið á sínum tíma, verður gerð góð skil. Sýningin mun lifa áfram í anddyrinu eftir opnun þannig að gestir og gangandi geti fræðst um húsið þegar heimsækja það“ segir Eva. Meðal fyrirtækja sem flytja inn í húsið í fyrsta áfanga eru Örmælir, Veraldarvinir, Eldmóður markþjálfun, Unnandi fræðasetur, Saga – Story House og Lex familia.

Nánari upplýsingar um Lífsgæðasetur St. Jó og starfsemi hússins má nálgast á heimasíðu setursins og Facebook síðu.

 

Nánari upplýsingar um þá leigutaka sem hafa gengið frá undirritun leigusamninga:

Örmælir: Örmælir er frumkvöðlafyrirtæki sem vinnur að því að þróa tæki sem vísindamenn í heilbrigðisrannsóknum geta nýtt sér en tækið kemur m.a. við sögu í krabbameinsrannsóknum og ýmsum rannsóknum á genagöllum. Að fyrirtækinu standa Sunna Björg Skarphéðinsdóttir (lífeðlisfræðingur) og Einir Guðlaugsson (rafmagnsverkfræðingur).

Veraldarvinir: Veraldarvinir eru íslensk félagasamtök sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða. Samtökin voru stofnuð í júní 2001 og hafa frá upphafi haft umhverfismál í öndvegi. Markmið samtakanna er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum og betri umgengni manna við umhverfi sitt. Við nálgumst markmið okkar með alþjóðlegu samstarfi og sjálfboðaliðastarfi og skipulagningu umhverfis- og menningartengdra verkefna í samvinnu við sveitarfélög og frjáls félagasamtök. Veraldarvinir eru brautryðjendur í skipulagningu slíkra verkefna hér á Íslandi.

Eldmóður Markþjálfun: Að fyrirtækinu stendur Kristín Þórsdóttir og býður hún upp á markþjálfun fyrir alla einstaklinga. Kristín er ACC markþjálfi og er einnig að efla færni sína í kynlífs-markþjálfun (e. sex coaching). Um þessar mundir fer hún í grunnskóla landsins með forvarnar-fyrirlesturinn „Sjálfsmynd og kynheilbrigði“ þar sem hún deilir sinni reynslu. Markmið Eldmóðs er að hjálpa einstaklingum að efla sjálfa sig og finna kraft sinn og getu til þess að fylgja sínum markmiðum og draumum.

Lex familia: Lex familia bíður uppá fjölskyldumeðferð til að takast á við margvíslegan vanda sem upp geta komið í fjölskyldum eða hjá einstaklingum ásamt lögfræðiaðstoð sem lítur að fjölskyldurétti þegar tekist er á um ýmis álitarefni sem upp geta komið í samskiptum fólks. Að fyrirtækinu standa þær Rakel Róbertsdóttir og Sóley Gunnarsdóttir. Rakel er þroskaþjálfi og fjölskyldufræðingur og hefur starfað um árabil hjá Hafnarfjarðarbæ í geðfötlunarmálum. Sóley er lögfræðingur og hefur mikla þekkingu á fjölskyldurétti og sáttameðferð.

Unnandi – fræðasetur: Unnandi – fræðasetur er hugarfóstur Steinunnar og Unnar Garðarsdætra. Með stofnun Unnanda vilja þær, með fjölbreyttum og gagnreyndum aðferðum, hjálpa fólki að finna samhljóm hugar, líkama og hjarta í því augnamiði að auka innsýn, víkka út reynslu og dýpka mannleg tengsl. Starfsemin byggir á námskeiðum, einkatímum og sérstökum viðburðum. Steinunn er í sérhæfðu framhaldsnámi í líkamsmiðaðri áfallameðferð og Unnur er mannfræðingur og kennari að mennt með sérhæfingu í umbreytandi reynslu.

Saga – Story House: Saga – Story House er lífsgæðafyrirtæki með áherslu á fólk og sögur, fjölbreytta fræðslu, ráðgjöf, heilsueflandi ferðir og lífsgæðavörur. Þjónustan hentar fyrirtækjum og einstaklingum á öllum aldri. Saga – Story House er m.a. í samstarfi við fræðslu- og ferðaþjónustuaðila og Virk Starfsendurhæfingarsjóð. Eigendur Sögu – Story House eru þær Guðbjörg Björnsdóttir iðjuþjálfi og Ingibjörg Valgeirsdóttir, MBA, uppeldis- og menntunarfræðingur/fjölmiðlafræði og jógakennari.