Samtök íþróttafréttamanna birtu í dag lista yfir þá tíu íþróttamenn sem flest atkvæði fengu í kjörinu á íþróttamanni ársins 2020. Í þeim hópi eru fjórir Hafnfirðingar og þá er einn þjálfari meðal þriggja efstu þjálfara. Úrslitin verða kynnt þriðjudagskvöldið 29. desember í beinni útsendingu á RÚV, þar sem greint var frá þessu í dag.

Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton Sveinn varð atvinnumaður á árinu þegar hann fékk samning hjá kanadíska liðinu Toronto Titans. Liðið var eitt af tólf sem kepptu í Alþjóðlegu ISL sunddeildinni, International Swimming League, í haust. Hann bætti bæði Íslands og- Norðurlandamet í 100 og 200 metra bringsundi í 25 metra laug. Að auki vann hann báðar greinar í mótum á ISL mótaröðinni. Anton Sveinn er eini Íslendingurinn sem hefur nú þegar tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum á næsta ári.
Þetta er í annað sinn, og annað árið í röð sem Anton Sveinn McKee er meðal tíu efstu í kjörinu á íþróttamanni ársins.

Aron Pálmarsson, handboltamaður hjá Barcelona á Spáni. Aron vann allt sem hægt var að vinna á Spáni með Barcelona, en liðið lék nærri 60 leiki í röð án taps í öllum mótum. Þá var Aron eini Íslendingurinn sem komst í úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu nú milli jóla og nýárs. Barcelona er eina taplausa liðið í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í haust og vetur. Aron lék einnig vel á köflum með landsliðinu, einkum þegar það sigraði Dani á EM.
Þetta er í áttunda sinn sem Aron Pálmarsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Aron hlaut nafnbótina íþróttamaður ársins árið 2012. Hann var í fyrsta sinn meðal tíu efstu árið 2010.

Gylfi Þór Sigurðsson, knattspyrnumaður hjá Everton í Englandi. Gylfi var lykilmaður í að koma Íslandi í úrslitaleik um sæti í lokakeppni EM næsta sumar, þegar hann skoraði bæði mörk Íslands í 2-1 sigri á Rúmeníu í undanúrslitum umspilsins. Gylfi fylgdi því svo eftir með marki beint úr aukaspyrnu á móti Ungverjum í úrslitaleiknum, sem þó tapaðist. Gylfi hefur á árinu spilað hluta leikja Everton í ensku úrvalsdeildinni.
Þetta er í tíunda sinn sem Gylfi Þór Sigurðsson er meðal tíu efstu í kjörinu. Gylfi hefur tvisvar hlotið sæmdarheitið íþróttamaður ársins, árin 2013 og 2016. Hann var í fyrsta sinn á meðal tíu efstu árið 2010 og svo allar götur frá 2012.

Sara Björk Gunnarsdóttir, knattspyrnukona hjá Lyon í Frakklandi. Sara Björk varð bæði þýskur meistari og bikarmeistari með Wolfsburg á árinu. Hún gekk svo í raðir franska stórliðsins Lyon í sumar og vann Meistaradeild Evrópu með Lyon eftir að hafa lagt Wolfsburg að velli í úrslitum. Sara Björk skoraði raunar þriðja markið í úrslitaleiknum sem fór 3-1. Sara er fyrsta íslenska knattspyrnukonan til að vinna Meistaradeildina. Þá var hún fyrirliði og lykilmaður í íslenska landsliðinu sem tryggði sér sæti á EM í Englandi.
Þetta er í níunda sinn sem Sara Björk Gunnarsdóttir er meðal tíu efstu í kjörinu. Sara hlaut nafnbótina íþróttamaður ársins 2018. Hún var fyrst á topp 10 listanum árið 2011 þegar hún endaði í 4. sæti. Hún hefur svo verið samfleytt á listanum frá og með árinu 2013.

Arnar Þór Viðarsson, knattspyrnuþjálfari 21 árs landsliðs Íslands. Undir stjórn hans vann 21 árs landsliðið sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins á næsta ári. Þetta er aðeins í annað sinn sem Ísland kemst á stórmót í þessum aldursflokki. Íslenska liðið vann þrjá af fjórum leikjum sínum á árinu.
Þetta er í fyrsta sinn sem Arnar Þór Viðarsson er meðal þriggja efstu í kjörinu á þjálfara ársins.
Forsíðumynd/skjáskot af RÚV