Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar fyrir árið 2020 og 4 ára áætlun 2020-2023 var samþykkt í bæjarstjórn í gær, miðvikudaginn 11. desember. Rekstur Hafnarfjarðarbæjar hefur gengið vel síðustu ár og ber fjárhagsáætlun merki agaðrar fjármálastjórnunar, stöðugleika og sterkrar fjárhagsstöðu. Áhersla er áfram á aukna þjónustu og á þróun og eflingu stafrænna þjónustuleiða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
Hafnarfjörður er þriðja stærsta sveitarfélag landsins með heildarútgjöld um 29,3 milljarða króna, áætlaðan launakostnað 14,7 milljarða króna og áætlaðan fjármagnskostnað um 1,4 milljarða króna. Rekstur Hafnarfjarðarbæjar hefur gengið vel síðustu ár. Rekstarniðurstaðan var jákvæð sem nam 1.129 milljónum króna árið 2018 og jákvæð um 799 milljónir króna árið 2017. Þannig er jafnframt gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða yfirstandandi árs verði jákvæð um sem nemur 791 milljónum króna. Útsvarsprósenta verður óbreytt milli ára eða 14,48%. Systkinaafsláttur hefur aukist og frístundastyrkur hækkað. Skuldaviðmið verður um 105% í árslok 2020 og á áætlunum samkvæmt að vera um 112% í árslok 2019. Áætlað veltufé frá rekstri A- og B-hluta eru 3,6 milljarðar króna eða tæp 12% af heildartekjum. Til stendur að fjárfesta fyrir 3,1 milljarða á árinu 2020 og ber þar helst að nefna uppbyggingu á suðurhöfninni, kaup á félagslegu húsnæði, Ásvallabraut, framkvæmdir veitna og forgangsröðun í grunnþjónustu sem snýr m.a. að skólamannvirkjum, samgöngum, fráveitumálum og endurnýjun á Sólvangi ásamt áframhaldandi framkvæmdum við nýjan leik-, tónlistar- og grunnskóla í Skarðshlíð.
„Samhliða því að efla og bæta grunnþjónustu sveitarfélagsins, standa fyrir mikilvægum framkvæmdum og áframhaldandi viðhaldi í takt við ákveðna forgangsröðun þá höfum við verið að stíga mikilvæg skref í átt að „snjallari“ Hafnarfirði. Breyttar þarfir og starfsumhverfi krefjast þess að við leitum allra leiða til að efla þjónustu og gera upplýsingar sífellt aðgengilegri. Rík áhersla verður lögð á það á nýju ári að nútímavæða og þróa veitta þjónustu með skýrari verkferlum og hagnýtingu upplýsingatækni“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar við samþykkt fjárhagsáætlunar í dag. Áfram verður unnið að stórum innleiðingarverkefnum á öllum sviðum sem snúa m.a. að heilsueflingu allra aldurshópa, snemmtækri íhlutun, fjölmenningu, notendasamráði og umbótum á starfsumhverfi nemenda og starfsfólks
Öll viðeigandi gögn er að finna í frétt á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar: https://www.hafnarfjordur.is/stjornsysla/frettir/fjarhagsaaetlun-2020-samthykkt