Á síðasta vetrardag komu nokkrir starfsmenn saman og hreinsuðu til á svæðinu í kringum höfuðstöðvar Gámaþjónustunnar við Berghellu. Á aðeins klukkustund tókst þeim að safna saman 280 kg af sorpi.

Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri.
„Starfsmenn okkar taka reglulega góðan hring inni á svæðinu okkar með tínur og gera svæðið snyrtilegt. Núna var áherslan á nærliggjandi svæði, svo sem hraunið sitt hvoru megin við Berghellu. Það er nefnilega svo mikill misskilningur að þetta sé kvöð og þurfi að vera leiðinlegt. Þvert á móti getur þetta verið skemmtileg stemning og fín tilbreyting frá daglegum störfum að standa aðeins upp og anda að sér fersku lofti og tína sorp í leiðinni. Við enduðum útiveruna á ísveislu og útkoman var skemmtileg samvera,“ segir Líf Lárusdóttir, markaðsstjóri Gámaþjónustunnar.

Gunnar Bragason, forstjóri Gámaþjónustunnar.
Forstjóri til fyrirmyndar
Það er skemmtilegt að segja frá því að Gunnar Bragason, forstjóri fyrirtækisins, er öllum hnútum kunnugur í hrauninu í kringum vinnusvæðið. „Hann fer reglulega og gengur um þar sem hann plokkar sorp sem fellur til á svæðinu. Við viljum hafa snyrtilegt í kringum okkur en því miður er það þannig að mikið af því sem er hér úti í hrauni er úrgangur sem hent hefur verið úr bílum. Þar má nefna kaffimál, sígarettupakka, sælgætisbréf o.fl. Hér er hægt að gera mun betur.
Bætt umhverfi – betri framtíð
Í apríl og maí er Gámaþjónustan með spennandi tilraunaverkefni í gangi þar sem fyrirtækjum í viðskiptum við þau stendur til boða plokksett að láni. Plokksettið inniheldur 20 sorptínur, 5 pokahaldara og glæra sterka plastpoka. Verkefnið hefur að sögn Lífar farið vel af stað og mörg fyrirtæki nú þegar tryggt sér settið. „Okkur langaði að leika okkur aðeins með hugtakið endurnýting, en nú er umræðan mikil sér í lagi í geira eins og okkar um endurvinnslu en minna um endurnotkun. Þegar veðrið fer að skána á vorin er algengt að fyrirtæki taki til hendinni í nærumhverfi sínu og okkur fannst þetta kjörin leið til að hjálpa þeim að stuðla að bættu umhverfi og þar af leiðandi betri framtíð. Við hvetjum að sjálfsögðu öll fyrirtæki til þess,“ segir Líf að endingu og bætir við að hægt er að panta plokksettið með því að fylla út eyðublað á vefsíðunni www.gamar.is.
Starfsfólk Gámaþjónustunnar á forsíðumynd: Líf Lárusdóttir, Björk Guðgeirsdóttir, Jónína Guðný Magnúsdóttir, Bernharð Hreinsson, Jón H. Steingrímsson. Myndir/OBÞ
Þessi umfjöllun er kynning.