Actavis og FH taka saman tuttugasta tímabilið í röð. Knattspyrnudeild FH og Actavis á Íslandi skrifuðu á föstudag undir samstarfssamning sem gildir til loka árs 2020. Samningurinn markar söguleg tímamót því sumarið 2020 verður 20. tímabilið í röð sem FH og Actavis mæta saman til leiks í fyrsta leik Íslandsmótsins í knattspyrnu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Frá handsali samningsins. Sigfús Örn t.v. og Valdimar t.h.
„Nú, eins og þegar samningurinn var undirritaður í fyrsta sinn, er það mikið gleðiefni að þetta öfluga fyrirtæki í Hafnarfirðinum skuli styðja við íþrótta- og æskulýðsstarf í bæjarfélaginu, í öllum okkar flokkum. Þessi liðsstyrkur, sem okkur barst fyrst í janúar 2001, hefur reynst drjúgur liðsfélagi í okkar starfi í gegnum árin“, segir Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH. Actavis hefur verið aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildar FH síðan í janúar 2001, þegar forveri Actavis, Delta, gerði fyrst samning við knattspyrnudeildina.
„Ef þessi samstarfssamningur væri meistaraflokksleikmaður væru sennilega allir búnir að afskrifa hann fyrir löngu vegna aldurs og hnjasks í gegnum tíðina. Við hjá Actavis erum fyrst og fremst þakklát fyrir að fá að taka þátt í einu tímabili í viðbót með knattspyrnudeildinni í öllum flokkum“, segir Sigfús Örn Guðmundsson, sviðsstjóri samskiptasviðs Actavis. „Actavis er enn jafnstolt af því að taka þátt í starfinu og það var í fyrsta sinn, þegar lið FH mætti til leiks með þáverandi merki fyrirtækisins framan á búningunum og er það okkur mikið gleðiefni að geta með þessum samningi haldið áfram að styðja við uppbygginguna á öflugri starfsemi knattspyrnudeildar FH.“
Gæfurík samvinna
Jafnframt segir í tilkynningunni að þessi samningur FH og Actavis endurspegli hlutverk Actavis í samfélaginu, sem sé að efla heilsu og lífsgæði almennings. Stuðningur við grasrótarstarf íþrótta- og æskulýðshreyfinga í nærumhverfi fyrirtækisins sé mikilvægur þáttur í uppfylla það hlutverk. Samvinna Actavis og FH hafi verið gæfurík fyrir báða aðila og hjálpað til við að ná markmiðum beggja og knattspyrnudeildin sé þakklát fyrir dyggan stuðning Actavis í gegnum árin, stuðning sem hafi verið mjög mikilvægur í uppbyggingu knattspyrnudeildarinnar, því það skipti öllu í þessu starfi að hafa trausta bakhjarla sem standi með félaginu til langs tíma.
Mynd aðsend.