Viðurkenning fræðsluráðs Hafnarfjarðarbæjar er veitt á hverju ári fyrir verkefni í skólastarfi sem ýta undir skólaþróun, fagsamvinnu og samstarf. Leikskólinn Smáralundur hlaut í vikunni viðurkenningu fyrir fjölbreyttan heilsueflandi skóla, Setbergsskóli fyrir lestur og ritun á yngsta kennslustigi og Víðistaðaskóli fyrir námsumhverfið veröld fyrir tvítyngda nemendur.
Veröld er sérstakt námsúrræði sem Víðistaðaskóli hefur byggt upp á síðustu þremur árum. Það hefur það hlutverk að taka á móti öllum nýjum tvítyngdum nemendum skólans og hjálpa til við aðlögun þeirra að bekkjarstarfi, skólanum og íslensku samfélagi. Sem námsúrræði styður Veröld íslenskunám nemenda með sérstakri kennslu í aðstöðu Veraldar í starfsstöðinni við Víðistaðatún en það er einnig með útibú í Engidalnum. Einnig hjálpar Veröld nemendum að aðlagast bekkjarstarfi og taka virkan þátt í daglegu skólastarfi með þeim viðfangsefnum í skólastarfinu sem nemendur takast á við í hverjum árgangi. Þá ýtir Veröld undir félagslega virkni nemenda, t.d. með sérstökum heimsóknum fyrir þá út fyrir skólann, t.d. á Þjóðminjasafnið, í leikhús og á söfnin í Hafnarfirði.
Fjölbreyttur heilsueflandi leikskóli
Leikskólinn Smáralundur í Hafnarfirði hefur verið heilsueflandi leikskóli frá árinu 2016. Leikskólinn leggur mikla áherslu á daglega hreyfingu innan jafnt sem utanhúss. Í dag vinnur leikskólinn að þriggja ára þróunarverkefni sem miðar að því að innleiða núvitund í leikskólastarfið og taka þannig enn eitt skrefið í átt að heilsueflandi sjónarmiðum sem stuðla jafnt að andlegu og líkamlegu heilbrigði barna og starfsfólks. Verkefnið hefur haft jákvæð áhrif á staðblæ skólans jafnt sem starfsánægju.
Lestur og ritun á yngsta kennslustigi
Síðastliðin fimm skólaár hefur Setbergsskóli unnið að þróun lestrar- og ritunarkennslu í upphafi grunnskólans með aðlögun á kennsluaðferðinni bein kennsla (e. direct instruction) inn í daglegt starf á yngsta stigi skólans. Verkefnið byrjaði sem þriggja ára rannsóknarverkefni með Háskóla Íslands og síðustu tvö ár hefur skólinn haldið áfram að þróa verkefnið á eigin vegum. Í þessari þróun á lestrar- og ritunarkennslu hefur skólinn aðlagað umrædda kennsluaðferð að íslensku skólastarfi og bætt við hana, til dæmis ritunarþætti og ýmsu lestrarefni frá MMS. Innleiðing á þessu verkefni í Setbergsskóla endurspeglar gott dæmi um jákvæðar breytingar í skólastarfi þar sem kennslan sjálf verður miðpunktur athyglinnar, þ.e. námsárangur nemenda, fagsamvinna kennara og aðlögun kennslukenninga að staðbundnum aðstæðum.
Mynd frá Hafnarfjarðarbær: Nemendur og starfsfólk Leikskólans Smáralundar taka á móti viðurkenningu fræðsluráðs Hafnarfjarðar.