Oddfellowreglan á Íslandi er grein af hinni bandarísku Oddfellowreglu IOOF sem stofnuð var árið 1819 og er því 200 ára gömul í ár. Kjarni Oddfellow á alheimsvísu er að styðja við líknarmál og 150 milljónum er varið í slík mál á þeirra vegum árlega. Félagar á Íslandi eru 4000, af báðum kynjum og öllum þjóðfélagsstigum. Við hittum Kristin Ásgeirsson, íbúa í Hafnarfirði og stjórnmálafræðing sem starfar í tölvugeiranum. Hann hefur verið félagi í þrjú ár og hann fræddi okkur nánar um þennan gamalgróna félagsskap.

Kristinn segist fá uppörvun og hvatningu, bæði í einkalífi og áhugamálum, hjá Oddfellow. Mynd/OBÞ

Kristinn tilheyrir stúkunni Snorra goða, sem er ein sjö stúkna í Hafnarfirði, með aðsetur á efstu hæð í Staðarbergi 2-4, en á fimmta hundrað manns eru félagar í Hafnarfirði. Kristinn segist alltaf hafa verið mikið í félagsstörfum og var boðin þátttaka í þessu göfuga starfi. „Þarna opnaðist ákveðin leið til að fá útrás fyrir þörf minni í þátttöku í öflugu félagslífi sem hefur heldur betur ræst úr. Foreldrar mínir eru í Oddfellow og hafa verið í fjölda ára. Ég fylgdist með pabba klæða sig upp í kjölföt öðru hverju og mér fannst ákveðinn sjarmi í kringum það. Þau voru mér hvatning til að kynna mér þetta betur,“ segir hann brosandi og bætir við: „Ég hef verið spurður að því hvort þetta sé leynifélag, sem það er alls ekki. Það er hægt að lesa allt um Oddfellow á heimasíðunni. Þarna fara fram ósköp venjulegir fundasiðir og afar öflugt félagslíf; segja má að þarna sé félagslíf fyrir fullorðna. Hér er bara viss fatastíll sem tengist 200 ára hefð. Það er bara hluti af sjarmanum, auk siða og venja sem fólk hefur lagt rækt við frá upphafi.“

Uppörvun og hvatning
Á heimasíðu Oddfellow reglunnar kemur fram að „odd fellow“ táknar „eiðsvarinn – sérstakur vinur“. Í félagsskapnum fer fram málefnalegt starf þar sem menn skiptast á skoðunum um málefni líðandi stundar. Þar eru þó hvorki rædd trúmál né stjórnmál, því slík mál valda sundrungu í heiminum. „Fyrir mér er félagsskapurinn, gildin sem allir geta tengt sig við almenns eðlis og hvernig maður horfir á sig sem manneskju, það er það sem er heillandi í þessu starfi. Maður kemst einnig í nálægð við fólk sem hefur upplifað ýmislegt. Það veltur þó mikið á manni sjálfum hvað maður vill fá út úr þessu starfi og hvernig tengsl maður vill mynda. Ég nýt samveru með bæði eldri og yngri félögum. Er sjálfur um fimmtugt. Hér fær maður uppörvun og hvatningu, bæði í einkalífi og áhugamálum“ segir Kristinn.

Bindi með hringjunum þremur, sem tákna vináttu, kærleika og sannleika. Mynd/OBÞ

Vinátta, kærleikur og sannleikur
Félagar vinna ötullega að líknarstarfi á siðfræðilegum og mannlegum grunni og reglan býr m.a. yfir sameiginlegum sjóði sem félagsmenn greiða í og hefur staðið straum af myndarlegum framlögum til líknarmála. Líknardeildin í Kópavogi, Ljósið, og Kvennaathvarfið eru meðal þeirra sem hafa hlotið styrki.
„Þetta eru mál sem snerta alla, auk minni styrkja, jólagjafa og fleiri mála. Mörg félagasamtök leita til okkar um styrki og stuðning. Við söfnum ekki feitum sjóðum og berjum okkur ekki á brjóst með það sem við styrkjum. Gildin okkar eru vinátta, kærleikur og sannleikur. Siðfræðin og samtalið sem eiga sér stað hér eru m.a. um það hvernig hægt er að verða betri samfélagsþegn og hvaða gildi maður hefur sem einstaklingur. Við fáum fyrirlesara eða segjum jafnvel reynslusögur af sjálfum okkur. Sumir bara mæta til að líða vel og hér er ekki farið í manngreiningarálit”.

Kynning á starfsemi allra Oddfellow reglnanna fer fram á landsvísu á opnu húsi 1. september og Kristinn hvetur fólk til að kíkja við í Staðarberginu og kynna sér starfsemina. Fulltrúar félagsmanna verða þar og svara öllum mögulegum spurningum. En geta allir orðið félagsmenn í Oddfellow? „Við gerum þær lágmarkskröfur að fólk standi á eigin fótum fjárhagslega og lífssýnin verður að passa við gildin okkar,“ segir Kristinn að lokum og hlakkar til að taka á móti gestum.

Hér má finna heimasíðu Oddfellow. 

Þessi umfjöllun er kynning.