Það var ánægjuleg frétt í síðustu viku um úttekt verðlagseftirlits ASÍ sem fjallaði um breytingar á leikskólagjöldum hjá 16 stærstu sveitarfélögum landsins. Þar kemur fram að 8 tíma vistun með fæði hækkar minnst í Hafnarfirði, um 0,64% eða 213 krónur. Þá er sérstaklega fjallað um þau áhrif sem systkinaafslættir geta haft á heildarútgjöld fjölskyldna til leikskóla ef fjölskyldur eru með fleiri en eitt barn. Í ljós kemur að hæstu afslættirnir eru í Hafnarfirði þar sem 75% afsláttur er fyrir annað barn og 100% fyrir þriðja barn.
Aukinn systkinaafsláttur var okkar fyrsta verk
Dvalargjöldum á leikskóla höfum við haldið óbreyttum, en systkinaafsláttur var aukinn til mikilla muna strax á fyrsta ári kjörtímabilsins líkt og við höfðum boðað fyrir kosningar. Afsláttur fyrir annað barn fór úr 50% í 75% og úr 75% í 100% fyrir þriðja barn. Auk þess var nýjum systkinaafslætti komið á skólamáltíðir grunnskólabarna þar sem fyrsta skrefið var stigið og þriðja barn fær nú 100% aflsátt. Í skoðun er útfærsla á því að veittur systkinaafsláttur gildi milli skólastiga.
Óboðlegur málflutningur um álverið í Straumsvík
Öflugt atvinnulíf og sterk byggð gefur okkur möguleika á að fjárfesta í innviðum og létta undir með íbúum bæjarfélagins líkt og núverandi meirihluti hefur gert. Nýverið lét Tómas Guðbjartsson, læknir, hafa það eftir sér að álverið í Straumsvík sé dauðvona og í líknandi meðferð. Í álverinu í Straumsvík starfa um 400 starfsmenn með ólíka menntun og reynslu, ásamt því að álverið er einn stærsti útflytjandi af vörum frá Íslandi. Það gefur því auga leið að fyrirtækið er samfélaginu mikilvægt. Álverið er eitt af okkar góðu og traustu fyrirtækjum hér í Hafnarfirði sem hefur gengið í gegnum ýmislegt. Málflutningur sem þessi er því óásættanlegur og í raun með öllu óboðlegur.
Öflugt atvinnulíf og sterk byggð
Við sjáum mikilvægi þess fyrir samfélagið okkar hér í Hafnarfirði að hafa öflugt og gott atvinnulíf. Árið 2018 lækkaði núverandi meirihluti álagningastuðul fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði úr 1,57% í 1,40% og var það liður í því að létta undir með atvinnulífinu hér í bæ og skapa því aðlaðandi starfsumhverfi. Bæði fyrir rótgróin traust fyrirtæki og nýja aðila sem hingað vilja koma. Það sama gerðum við fyrir íbúa bæjarfélagsins þegar álagningarstuðull fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði var lækkaður úr 0,28% í 0,26%.
Skipulagsvinna hefur gengið vel á kjörtímabilinu og er hún langt komin á mörgum svæðum. Þar má nefna skipulagsvinnu í Hamranesinu þar sem gert er ráð fyrir alls um 1200 íbúðum. Verið er að vinna að deiliskipulagi fyrir reit á Hraun vestur, þar sem gert er ráð fyrir um 485 íbúðum, ásamt verslunum og þjónustu. Einnig má nefna að rammskipulag Flensborgarhafnar og Óseyrarsvæðis er tilbúið, en þar er gert ráð fyrir að glæsileg byggð muni rísa í bland við atvinnutengda starfsemi og þjónustu. Ég tel þar mikilvægt að svæðin þrjú geti öll þróast til framtíðar sem blönduð byggð íbúðar- og atvinnusvæðis í takt við áherslur um vistvæna byggð. Þetta er aðeins brot af því sem er í gangi, en öll vinna við nýbyggingarsvæði og þéttingarreiti er í góðum farvegi. Það eru því spennandi tímar framundan hér í Hafnarfirði. Við munum áfram standa vörð um sterka byggð og öflugt atvinnulíf hér í bæ.
Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs í Hafnarfirði