Aðfararnótt 26. apríl síðastliðinn fór Víðir Stefánsson, 56 ára Hafnfirðingur, í hjartastopp í svefni. Víðir stundar heilbrigt líferni að staðaldri en var í áhættuhópi í ljósi ættarsögu og hafði ekki farið í skoðun sl. 10 ár.  Víðir lauk í síðustu viku embættisskyldum sínum sem forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar, en klúbburinn afhenti nýverið Björgunarsveit Hafnarfjarðar hjartastuðtæki, til minningar um tvo unga menn sem tengdust félögum í klúbbnum og voru meðlimir í björgunarsveitinni, en slíkt tæki spilaði stóran þátt í lífgjöf Víðis. 

Hjartastuðtæki var fyrir skömmu gefið Björgunarsveit Hafnarfjarðar af Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar, til minningar um tvo félaga í björgunarsveitinni, þá Birgi Guðmundsson (sonur rótarýfélaganna Guðmundar Rúnars Ólafssonar og Lindu Magnúsdóttur) og Sigurð Darra Björnsson (barnabarn Sigurðar Þórðarsonar rótarýfélaga). Félagar úr björgunarsveitinni, Gísli J. Johnsen formaður og Sveinn Sigurjónsson, tóku við gjöfinni úr hendi Víðis Stefánssonar, forseta Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar. Viðstödd voru einnig foreldar Birgis, ásamt foreldum Sigurðar Darra, systur hans og afa. Mynd/OBÞ

Kvöldi fyrir hjartastoppið fór Víðir, að hann hélt, heilbrigður að sofa eftir góðan hjólatúr með eiginkonunni  . „Um nóttina rís ég upp og rek upp eitthvað vein, sem líklega er andnauð, og við það vaknar konan mín, Elín Ragna Sigurðardóttir, sem sefur yfirleitt mjög laust. Hún sér að eitthvað er að og þá er ég kominn í hjartastopp,“ segir Víðir. Elín kallar á dóttur þeirra Gígju Sif og hringir í Neyðarlínuna og þær hnoða Víði eftir tilmælum fagfólks þar til lögreglan kemur og sjúkrabíllinn, eftir þrjár mínútur. „Þær héldu ótrúlegri einbeitingu og yfirvegun við erfiðar aðstæður. Það skiptir líka miklu máli hvar maður er staðsettur varðandi aðgengi sjúkrabílnum og ég var heppinn að búa nálægt stöðinni.“

Víðir, eiginkona hans, Elín og barnabarnið Andrea Elín. Myndin var tekin af þeim í vetur þegar fjallað var um Rótarýklúbb Hafnarfjarðar í Hafnfirðingi. Mynd/OBÞ

Hjartað stoppaði í 4 mínútur

Sjúkraflutningamennirnir notuðu hjartastuðtæki til að endurlífga Víði eftir 4 mínútna hjartastopp og það tókst í 2. tilraun. „Svo var ég bara meðvitundalaus og vaknaði á 3. degi á hjartadeildinni. Í millitíðinni hafði ég fyrst verið fluttur á Landspítalann í Fossvogi í heilaskanna og í framahaldi af því í bráðaþræðingu vinstra megin. Æðarnar í hjartanu hægra megin reyndust voru líka stíflaðar og því var gerður holskurður og teknar æðar úr fótlegg og brjóstholi og settar í staðinn fyrir skemmdu æðarnar. Alveg hreint ótrúleg fagmennska hjá skurðlæknunum Tómasi Guðbjartssyni og Tómasi Þór Kristinssyni. Ég er þeim afar þakklátur, sem og hjúkrunarfólki og sjúkraliðum sem önnuðust mig meðan á þessu stóð.“

Börnin fóru strax í tékk

Aðspurður segist Víðir ekki hafa fundið fyrir neinu sérstöku vikurnar eða mánuðina áður, sem bent gæti til þess sem kom á daginn, nema kannski helst eitthvað sem líktist bakflæði fyrir töluvert löngu síðan sem svo hvarf. „Það er svo lúmskt og ég var langt í frá mæðinn og þrekið var gott. Ég hef ekkert reykt og stunda heilbrigt líferni. Það skiptir svo miklu máli að láta fylgjast með sér. Þetta er sjúkdómur sem tekur 10-15 ár að koma sér fyrir í kransæðunum. Ég er í áhættuhópi og það er til staðar ættarsaga hjartasjúkdóma, bæði föður og móður megin. Tvær systur mínar sem hafa báðar farið í sams konar skurð og ég. Foreldrar mínir voru líka með svipuð einkenni, en voru þó töluvert eldri en ég þegar þau fundu fyrir þeim. Börnin mín fóru strax í tékk eftir þetta,“ segir Víðir.  

Ein algeng gerð hjartastuðtækis. Mynd/OBÞ

Lífgjöf og nýtt tækifæri

Eftir endurlífgunina og bráðaþræðinguna dvaldi Víðir í 3 vikur á hjartadeild Landspítala. „Ég byrjaði á að jafna mig eftir þetta allt, en svo tók við önnur þræðing til að ganga í skugga um hvort það þyrfti skurðaðgerð. Þá var mér sýnt að þrjár æðar hægra megin væru vel stíflaðar. Svo voru þau með þrívíddarskanna þar sem allt var skoða betur.“ Þetta var í fyrsta sinn sem Víðir lagðist inn á sjúkrahús og hann viðurkennir að eftir svona reynslu horfi hann yfir farinn veg og hvar hann standi í dag. „Það er svo mikilvægt að staðsetja sig þannig að um lífgjöf og nýtt tækifæri hafi verið að ræða. Og svo ættu svona hjartastuðtæki að vera sem víðast og ég hvet alla sem ekki hafa sótt skyndihjálparnámskeið að gera það. Fyrstu viðbrögð skipta mestu máli,“ segir Víðir að endingu.