Í dag kemur út jólalagið Dingaling með hinum ástsæla hafnfirska leikara, söngvara, laga- og textahöfundi Þórhalli Sigurðssyni, eða Ladda eins og allir þekkja hann. Þetta er fyrsta jólalagið sem Laddi syngur á plötu síðan 1986, þegar Snjókorn falla kom út. Við fengum að trufla afar tímabundinn Ladda í tilefni tímamótanna og komumst m.a. að því að framundan er einnig 75 ára afmælissýning í janúar, með gríni, leik og tónlist eins og honum er einum lagið. Og Laddi heyrði lokaútgáfu nýja lagsins fyrst í gær.

Hvernig kom þetta til? „Þau hjá Alda music höfðu samband við mig og vildu endilega gefa út jólalag með mér. Þau töluðu svo við lagahöfundinn Ásgeir Orra Ásgeirsson um að semja lagið. Næsta sem ég veit er að hann er búinn að semja sérstakt lag og ég vildi heyra lagið. Um leið og ég gerði það sagði ég já því það er mjög grípandi og skemmtilegt, segir Laddi í stuttu viðtali við Hafnfirðing. Nóg er að gera hjá þessum vinsæla Hafnfirðingi. Hann heyrði t.a.m. lokaútsetningu lagsins Dingaling bara í gær og heillaðist mikið. „Þegar Barnakór Kársnesskóla er kominn þarna með líka þá er þetta alveg æðislega skemmtilegt. Það var svo jólalegt og ég fékk gæsahúð. Bragi Valdimar Skúlason samdi textann og með þessa tvo snillinga, hann og Ásgeir Orra, þá getur þetta ekki klikkað!“

Dingaling, af Spotify.
Snjókorn falla af Youtube.

Dingaling er fyrsta jólalag sem gefið er út með Ladda í 35 ár. Snjókorn falla kom út árið 1986 og Laddi söng það svo eftirminnilega við texta annars Hafnfirðings, Jónatans Garðarssonar. Fyrir um 20 árum gaf Eiríkur Fjalar út lagið Það er æðislega obboðslega gaman oft á jólunum, en það var síðan einnig gefið út á jólasafnplötunni Jóla hvað? sem kom út árið 2007 og innihélt öll vinsælustu jólalög sem Laddi hafði sungið fram að því. „Já ég var alveg hissa þegar útgefendur höfðu samband og sagði við þá að það væri ekki til nóg efni í svoleiðis. Þeir héldu það nú!,“ segir hann hlæjandi og bætti við að auðvelt sé að gleyma hversu margt er búið að gera á löngum ferli.

Jólaplatan Jóla hvað? sem kom út 2007.
Lagalisti plötunnar Jóla hvað? síðan 2007. Þarna sést hversu mörg jólalög Laddi hefur sungið.

Afmælissýningin 20. janúar verður að sögn Ladda svipuð og Laddi 60ugur sýningin var sem sló í gegn árið 2007. Hún mun skiptast í tvennt; fyrri hlutinn verða karakterar Ladda og grín og í seinni hlutanum verður meiri tónleikaáhersla. Staðurinn verður Háskólabíó og ferilillinn rifjaður hressilega upp, enda af nægu að taka.

Til skemmtunar og sækja smá nostalgíu, þá eru hér nokkur jólalög sem Laddi hefur sungið í tímans rás: