Framdyrum strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu verður lokað frá og með morgundeginum, 16. mars. Ráðstöfunin er gerð af Strætó vegna samkomubanns sem tekur gildi á miðnætti og til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar. Upplýsingafullrúi Strætós segir að þar til nákvæmar leiðbeiningar komi frá yfirvöldum þá haldi fyrirtækið sig við sams konar ráðstafanir og hin Norðurlöndin.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingfulltrúi Strætós segir í samtali við Hafnfirðing að viðskiptavinir á höfuðborgarsvæðinu séu vinsamlegast beðnir að ganga inn um mið- eða aftari dyr vagnsins. „Við hvetjum einnig viðskiptavini okkar til að greiða fargjöld með strætókorti eða strætóappi og að halda korti eða síma á lofti í átt að vagnstjóra í stað þess að ganga fram í vagninn til að staðfesta fargjaldið. Þeir viðskiptavinir sem greiða með peningum eða strætómiðum ganga fram í vagninn til greiðslu fargjalds.“

Sambærilega aðgerðir og á hinum Norðurlöndunum
Vegna samkomubannsins gerir Guðmundur ráð fyrir mun færri farþegum, þar sem skólahald skerðist og einnig starfsemi margra stórra vinnustaða. „Þessar aðgerðir eru sambærilegar viðbrögðum annarra almenningssamgöngufyrirtækja á Norðurlöndum og verða í gildi samhliða samkomubanni. Við hvetjum að sjálfsögðu alla viðskiptavini til þess að fylgja fyrirmælum yfirvalda um sóttvarnir, vera meðvitaðir um smitleiðir veirunnar og ferðast ekki með almenningssamgöngum ef grunur leikur á smiti,“ segir Guðmundur að endingu.