Það verður tónlistarveisla í Fríkirkjunni í Hafnarfirði laugardaginn 2. febrúar næstkomandi, þar sem útgáfu plötunnar RÓMUR verður fagnað. Rómur er fyrsta íslenska breiðskífan fyrir lýru og söng, en það er Inga Björk Ingadóttir sem á veg og vanda að plötunni.

Á tónleikunum fær lýran, söngröddin og tónlistin á plötunni að njóta sín í lifandi flutningi. Það er Stefán Örn Gunnlaugsson tónlistarmaður og upptökustjóri sem er meðleikari Ingu Bjarkar á tónleikunum. Einstakur hljómur lýrunnar leiðir sköpunarferlið við gerð laga og texta Ingu Bjarkar, en hljóðfærið hefur algjöra sérstöðu í íslenskri tónlistarflóru. Lögin á plötunni eru öll samin á lýruna, fyrir lýruna og söngröddina og einkennast þau af nánu og einlægu samtali lýrunnar og raddarinnar.

Inga Björk mundar lýru í Hafnarborg. Mynd/Olga Björt.

Inga Björk Ingadóttir er tónskáld, lýruleikari og söngkona. Hennar aðalstarf er við músíkmeðferð og tónlistarkennslu í Hljómu Hafnarfirði. Inga Björk hefur frá unga aldri lifað og hrærst í tónlistinni. Hún byrjaði að syngja áður en hún talaði og nýtti hvert tækifæri sem gafst til að iðka og upplifa tónlist. Inga Björk hefur komið víða við á tónlistarferli sínum. Hún lærði á píanó og lauk burtfararprófi frá Tónlistarskóla Kópavogs þar sem hún nam einnig tónsmíðar og tölvutónlist. Hún hélt til náms í músíkmeðferð í Berlín árið 2001 og lauk þar námi 2006. Frá þeim tíma hefur hún sótt fjölda námskeiða og starfað að músíkmeðferð, tónlistarsköpun og kennslu hér heima og erlendis. Hún er stofnandi og eigandi Hljómu á Austurgötu, þar sem hún sinnir músíkmeðferð fyrir breiðan hóp skjólstæðinga. Inga Björk kemur reglulega fram með tónlist sína hérlendis og erlendis.

Stefán Örn í stúdíóinu. Mynd ÓMS

Meðleikari Ingu Bjarkar á tónleikunum er Stefán Örn Gunnlaugsson. Hann er tónsmiður, hljóðfæraleikari og upptökustjóri. Hann er eigandi Stúdíó Bambus, þar sem hann stjórnar upptökum og hljóðblandar fyrir fjöldann allan af tónlistarfólki, auk þess að sinna eigin tónlistarsköpun. Stefán hefur gefið út ógrynni af tónlist, bæði sólóverkefni sín og önnur í samvinnu við tónlistarfólk úr ýmsum áttum. Stefán Örn sá einnig um upptökur og hljóðblöndun plötu Ingu Bjarkar.

Útgáfutónleikarnir í Fríkirkjunni á laugardag hefjast kl. 20 og miðaverð er 2500 kr. Miðapantanir:musikmedferd@hljoma.is og við innganginn.

Forsíðumynd/OBÞ