Vágestur hefur barið að dyrum. Covid-19 hefur haft gífurleg áhrif á samfélagið og við því hefur þurft að bregðast. Fjölskyldu – og barnamálasvið sinnir þjónustu við viðkvæmustu hópa samfélagsins. Starfsmenn sviðsins hafa þurft að breyta þjónustunni og aðlagað hana að íbúum. Þeir hafa gert það með fagmennsku og lausnaleit að leiðarljósi.

Sem dæmi um verkefni sem hefur farið af stað er að starfsmenn sviðsins í samvinnu við Félag eldri borgara hringja í alla 85 ára og eldri sem búa enn í heimahúsi. Félagsstarf eldri borgara er ekki í gangi og því viðbúið að margir séu einir heima og því er símtal kærkomið. Annað verkefni sem má nefna er skjáinnlit til eldri borgara í gegnum spjaldtölvur. Hópur eldri borgara sem ekki er með stóra fjölskyldu nálægt sér fá spjaldtölvu og geta með henni átt myndsímtöl við fjölskylduna. Það er búið að uppfæra spjaldtölvuna með helstu forritum og einnig er hægt að nýta hana til að lesa blöðin, fara á netið eða hlusta á hljóðbækur.

Litla kaffihúsið

Samkomubann og tilbreytingaleysi er að reynast sumum íbúum á búsetukjörnum mikil áskorun. Í ljósi þess var sett á fót kaffihús sem er staðsett að Suðurgötu 14. Forstöðumenn panta tíma í húsinu og koma með sína íbúa á ákveðnum tíma þar sem boðið er uppá veitingar, hægt að horfa á kvikmyndir, púsla eða hvað eina sem fólki hugnast eftir löngun og líðan. Komið er saman í öruggu umhverfi þar sem gætt er sérstaklega að tilmælum Almannavarna um hreinlæti og samveru.

Annar vágestur

Á þessum tímum safnar annar vágestur kröftum. Vísbendingar eru um að ofbeldi aukist inn á heimilum. Við sem samborgarar, nágrannar, vinir, samstarfsmenn eða fjölskylda eigum að tilkynna hvers kyns grunsemdir um ofbeldi eða vanrækslu, hvort sem það er gagnvart börnum eða fullorðnum. Tilkynna til barnaverndar og/eða lögreglu.

Með samstöðu og samkennd komumst við sem samfélag í gegnum þetta. Með hækkandi sól þá mun aftur birta til.

Valdimar Víðisson

Formaður fjölskylduráðs