Stóra upplestrarkeppnin fagnar í ár 25 ára afmæli og hefur keppnin stækkað og eflst svo um munar með árunum og er nú haldin á landsvísu. Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Hafnarfirði var haldin í Víðistaðakirkju í gær að viðstöddum fulltrúum frá grunnskólum Hafnarfjarðar, aðstandendum og boðsgestum. Þessi merkilega keppni hefst ár hvert á Degi íslenskrar tungu 16. nóvember og lýkur í mars með því að veitt er viðurkenning til þriggja nemenda í hverju byggðarlagi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Allir grunnskólar Hafnarfjarðar senda fulltrúa til keppninnar og koma tveir frá hverjum skóla. Á hátíðinni stigu sextán nemendur úr 7. bekkjum grunnskólanna á stokk og fluttu brot úr skáldverki Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk en þau eru skáld keppninnar í ár. Allir nemendur fengu viðurkenningu og gjafir fyrir flutning sinn og frammistöðu og hvatningu og hamingjuóskir frá Forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni, Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra og Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur skáldi keppninnar og bæjarlistamanni Hafnarfjarðar 2020 sem öll heiðruðu hópinn með nærveru sinni. Dómnefnd valdi að lokum þrjá bestu fyrirlesarana og veitti þeim sérstaka viðurkenningu. Það voru þau Rán Þórarinsdóttir í Setbergsskóla (1. sæti), Lilja Dís Hjörleifsdóttir í Setbergsskóla (2. sæti) og Sigurður Ísak Hlynsson (3. sæti) í Hraunvallaskóla sem þóttu fremst meðal jafningja þetta árið. Dómnefndina í ár skipuðu þau Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Björk Einisdóttir formaður dómnefndar, Almar Blær Sigurjónsson og Birgir Örn Guðjónsson. Nemendur frá Tónlistarskóla Hafnarfjarðar stigu á stokk með fallegan hljóðfæraleik auk þess sem nemendur í 4. bekk og þátttakendur í Litlu upplestrarkeppninni 2021 sigu fram sem talkór sem er eitt af einkennum Litlu upplestrarkeppninnar.  

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson, Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar heiðruðu hópinn með nærveru sinni. Mynd/Hafnarfjarðarbær

Viðurkenningar fyrir listaverk og smásögur

Á hátíðinni voru viðurkenningar veittar fyrir smásagnasamkeppni 8. – 10. bekkja og í samkeppni um verðlaunamynd á boðskort lokahátíðarinnar. Kolbrún Garðarsdóttir í 10. bekk í Hraunvallaskóla hlaut fyrsta sætið fyrir söguna Snjókorn sem taka sinn tíma og Marta Björnsdóttir í Öldutúnsskóla annað sætið fyrir söguna Lovísu. Þær Elísa Lana Sigurjónsdóttir í Víðistaðaskóla með söguna Með lífið að veði og Elísa Kristín Böðvarsdóttir í Skarðshlíðarskóla með söguna Flateyri lentu saman í þriðja sæti. Eyrún Guðmundsdóttir nemandi í Lækjarskóla fékk viðurkenningu fyrir listaverk á boðskort lokahátíðar en ár hvert taka nemendur í sjöttu bekkjum skólanna þátt í samkeppni um boðskort.

Mynd 3: Ingibjörg Einarsdóttir upphafsmaður Stóru upplestrarkeppninnar hefur fylgt keppninni eftir frá upphafi eða í 25 ár, þróað hana og mótað í samstarfi við m.a. sveitarfélög og skólasamfélagið á hverjum stað. Stóra upplestrarkeppnin hófst sem tilraunaverkefni um upplestur í Hafnarfirði veturinn 1996-1997

Snýst ekki um að koma fyrstur í mark 

Stóra upplestarkeppnin snýst ekki um að komast fyrstur í mark heldur um þjálfun og það að vanda sig í upplestri. Ingibjörg Einarsdóttir upphafsmaður Stóru upplestrarkeppninnar hefur fylgt keppninni eftir frá upphafi eða í 25 ár, þróað hana og mótað í virku samstarfi við m.a. sveitarfélög og skólasamfélagið á hverjum stað. Stóra upplestrarkeppnin hófst sem tilraunaverkefni um upplestur í Hafnarfirði veturinn 1996-1997 en þróaðist fljótt í að verða verkefni sem framkvæmt er á landsvísu af félaginu Röddum, samtökum um vandaðan upplestur og framsögn. Árið í ár er síðasta árið sem Raddir og frumkvöðullinn Ingibjörg sjá um framkvæmdina á keppninni og hátíðinni og tók Ingibjörg á móti þökkum og árnaðaróskum á uppskeruhátíð gærdagsins. Framkvæmdin mun framvegis verða á hendi sveitarfélaganna sjálfra. Raddir munu áfram standa að Litlu upplestrarkeppninni sem er vaxandi sprotaverkefni út frá Stóru upplestrarkeppninni ætlað nemendum í 4. bekkjum grunnskólanna og hefur sama tilgang en öðruvísi nálgun. Í grunninn snúast báðar keppnirnar um að rækta ylhýra íslenska tungu með þjálfun og vönduðum upplestri.

Forsíðumynd: Hér má sjá þá nemendur sem hrepptu efstu sætin ásamt skólastjórum þeirra skóla. Sigurður Ísak Hlynsson í Hraunvallaskóla með Lars Jóhanni Imsland skólastjóra og þær Rán Þórarinsdóttir og Lilja Dís Hjörleifsdóttir í Setbergsskóla með Maríu Pálmadóttur skólastóra.