Aukin áhersla verður á beinar útsendingar á Facebook, enda er framleiðslufyrirtækið Skjáskot flutt frá Reykjavík og á 2. hæð í Firði, verslunarmiðstöð.

Frá og með fyrsta tölublaði sumarsins 2. maí verða afmarkaðri áherslur í útgáfu Fjarðarpóstsins. Blaðið verður alltaf 16 til 32 síður og dreift á tveggja vikna fresti, í stað vikulega. Aukin áhersla á móti verður á vef, beinar útsendingar og samfélagsmiðla.

„Við höfum velt þessum áherslum vel fyrir okkur frá áramótum og góð fordæmi eru fyrir því í sumum stærri sveitarfélögum á landinu af gefa út prentaða bæjarmiðla á 2-3 vikna fresti. Það hefur gefist vel hjá þeim miðlum og aukinn tími og rými til að vanda enn betur til verka og gefa út eigulegri blöð sem bæjarbúar geyma þá gjarnan og fletta aftur og aftur,“ segir Olga Björt Þórðardóttir, útgefandi og ritstjóri Fjarðarpóstsins. Hún á í góðu sambandi við nokkra eigendur og ritstjóra bæjarmiðla víða á suðvesturhorninu, sem hafa gefið henni góð ráð og hvatt eindregið til að taka þessa stefnu.

Benedikt Grétarsson mun áfram fjalla um íþróttir í bænum. Netfangið hans er bgretarsson@gmail.com.

„Fjarðarpósturinn hefur fá árinu 2016 verið með ritstjórnarstefnu sem einkennist af því að fjalla um Hafnfirðinga og hafnfirska menningu og tíðaranda á sem jákvæðastan og uppbyggilegastan hátt. Okkar einkenni eru bæði dýpt og vídd í mannlegum viðfangsefnum, viðtöl og viðburðir. Hjá okkur eiga pólitískar deilur heima í aðsendum greinum og núna verður aukið rými fyrir þær í stærri tölublöðum. Einnig hefur aukist að þau fjölmörgu góðu fyrirtæki sem hér eru í bænum óski eftir sýnileika og umfjöllun. Það er okkar sérsvið líka og slík umfjöllun fer alltaf einnig á vefinn og þaðan á Facebook og nær meiri drefingu en bara í prentaðri útgáfu. Við viljum gefa okkur enn betri tíma í þetta í okkar fjölbreyttu fjölmiðlun. Þar liggja tækifærin,“ segir Olga Björt.

Tryggvi Rafnsson sér um hlaðvarpið Hafnfirðinginn.

Samvinna, sveigjanleiki og sátt

Hún viðurkennir að eðlilega muni taka bæjarbúa og auglýsendur einhvern tíma að átta sig á breytingunum, en vonar að þeir sjái smám saman að þær eiga að vera til góðs. „Þetta er mikill viðburðabær og eflaust mun einhverjum þykja erfitt að plana auglýsingar lengra fram í tímann en vanalega, en ég er þegar að undirbúa jarðveginn með því að eiga spjall við mína góðu og tryggu auglýsendur, m.a. með því að benda þeim á að auðveldlega er hægt að vekja athygli á viðburðum á vef og Facebook síðu Fjarðarpóstsins nær þeim tíma sem þeir eiga sér stað, en þegar auglýsingin birtist í blaðinu. Þetta er allt spurning um samvinnu, sveigjanleika og sátt.“

Eins og reynslan sýnir hjá öðrum bæjarblöðum sem koma út sjaldnar en vikulega leggur Olga Björt áherslu á að slík blöð séu geymd lengur, vegna gæða efnis og stærð blaða, og því betur tekið eftir tilkynningum og auglýsingum. „Að mínu mati á bæjarmiðill fyrst og fremst að tengja bæjarbúa við nærsamfélag sitt; sögu, mannlíf, menningu, fréttir, umræðu líðandi stundar og athafnalíf. Við munum áfram gera okkar besta í þeim efnum og fögnum öllum ábendingum. Ef mikið ber undir og mikil þörf fyrir fleiri tölublöð inni á milli útgefinna, t.d. á aðventu eða fyrir kosningar, þá að sjálfsögðu skoðum við það vel.“

Útgáfudagar Fjarðarpóstsins fram í tímann munu koma fram á áberandi stað í prentuðu útgáfunni og á vefnum. Næstu útgáfudagar eru 2. maí, 16. maí og 29. maí (uppstigningardagur 30/5). Auglýsingar verða að berast í síðasta lagi á hádegi á þriðjudegi í útgáfuviku og aðsendar greinar fyrir miðnætti á mánudegi.