Eygló Þóra Harðardóttir var kjörin nýr formaður Framsóknar í Kraganum á 20. reglulega kjördæmisþingi Kjördæmissambands Framsóknarmanna í Suðuvesturkjördæmi, KFSV, sem haldið var í gær, 31. október. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Þingið fór fram á fjarfundi og er það í fyrsta sinn sem þingið er haldið á þann hátt. Hildur Helga Gísladóttir fráfarandi formaður gaf ekki kost á sér til endurkjörs eftir 14 ár á formannsstóli.

Með grímurnar var hægt að standa hlið við hlið. Mynd/aðsend

Í stjórnina með Eygló voru kjörin Guðmundur Birkir Þorkelsson, Margrét Sigmundsdóttir, Pétur Einir Þórðarson, Þorbjörg Sólbjartsdóttir, Guðmundur Einarsson og Úlfar Ármannsson. Til vara, Inga Þyrí Kjartansdóttir og Þórður Ingi Scheving Bjarnason.

Skráðir fulltrúar á þingið voru rúmlega eitthundrað. Í aðsendri fréttatilkynningu kemur fram að þingstörfin og rafrænar kosningar hafi gengið vel fyrir sig þótt aðstæður fundarins hafi verið óvenjulegar.

Rafrænar kosningar gengu vel fyrir sig, segir í fréttatilkynningu. Mynd/aðsend

Helga Hauksdóttir var kjörin formaður kjörstjórnar. Willum Þór Þórsson er þingmaður Framsóknarflokksins í Kraganum og fyrsti varaþingmaður er Kristbjörg Þórisdóttir sálfræðingur.

Þingið samþykkti einróma tillögu stjórnar Kjördæmissambandsins um að lokað prófkjör færi fram þann 10. apríl nk. til að velja frambjóðendur í fimm efstu sætin á frambosðlista Framsóknarflokksins í kjördæminu fyrir næstu alþingiskosningar og að leitað yrði leiða til að valið gæti farið fram með rafrænum hætti.  

Frambjóðendur geta þeir einir orðið sem eru félagar í Framsóknarflokknum og hafa kjörgengi til Alþingis, þ.m.t. þeir sem skilað hafa inn inngöngubeiðnum í Framsóknarflokkinn 30 dögum fyrir valdag og hafa náð 18 ára aldri á kjördag til Alþingis.  Rétt til atkvæðagreiðslu eiga flokksbundnir framsóknarmenn sem eiga lögheimili í kjördæminu, þ.m.t. þeir sem skilað hafa inn inngöngubeiðnum í Framsóknarflokkinn 30 dögum fyrir valdag.