Borðtennisdeild BH vann nýverið mikið afrek þegar Íslandsmeistaratitillinn í liðakeppni kom í hús eftir 43 ára einokun KR og Víkings. Þjálfarinn Tómas Shelton stýrði BH-ingum til sigurs en liðið er skipað þeim Birgi Ívarssyni, Magnúsi Gauta Úlfarssyni og bræðrunum Pétri og Jóhannesi Urbancic Tómassonum. Við hittum á þá bræður nýlega á lokamóti Grand Prix mótaraðarinnar þar sem Jóhannes hafnaði í öðru sæti og Pétur tók bronsið. Það fyrsta sem rifjað var upp voru innileg fagnaðarlæti BH-manna eftir þennan sögulega sigur á Íslandsmótinu.

„Pétur náttúrulega missti sig aðeins“, segir Jóhannes brosandi. „ Já ég tæklaði óvart Magnús Gauta, liðsfélaga okkar sem átti lokaleikinn. Það var algjörlega óvart og gerðist auðvitað bara í gleði augnabliksins. Tilfiningin að verða Íslandsmeistari var frábær. Við erum báðir búnir að stunda þessa íþrótt í 20 ár og að ná loksins þessum árangri var bara geggjað,“ sagði Pétur og bræðurnir eru sammála að framtíðin sé björt.
„Við munum halda okkar striki en Íslandsmeistaraliðið mun þó veikjast umtalsvert á næsta ári þegar bæði Magnús og Birgir fara að æfa erlendis. Það er bæði gott og rétt skref hjá þeim báðum og bara frábært að sjá þessa stráka halda áfram að bæta sig. Þeir eru báðir metnaðargjarnir, æfa mjög vel og gætu náð langt. Við bræður þurfum núna að fara að finna einhverja með okkur í lið næsta vetur en það hlýtur að reddast. Það er reyndar leyfilegt að vera að æfa erlendis en spila hér heima, þannig að það er aldrei að vita nema þeir kumpánar fljúgi heim til að spila með okkur næsta vor.“

Úr vesturbænum í fjörðinn
Pétur og Jóhannes hafa verið með spaðann í höndunum frá blautu barnsbeini.
„Við erum búnir að spila borðtennis síðan við vorum bara kríli og erum báðir upphaflega KR-ingar. Jóhannes kom í BH árið 2011 þegar borðtennisdeild BH var stofnuð að upplagi Ingimars Ingimarssonar en ég skipti alfarið yfir árið 2017. Þá höfðu Tómas, Birgir, Magnús og Jóhannes unnið aðra deildina með BH og það er skemmtileg staðreynd að þjálfarinn okkar, Tómas Shelton er sá maður sem oftast hefur unnið aðra deildina á Íslandi,“ bætir Pétur við.

Þó að borðtennisdeild BH sé ekki gömul, er greinilega verið að vinna öflugt starf í félaginu.
„Magnús Gauti og Birgir eru að keppa á heimsmeistaramótinu í borðtennis og BH á því tvo af þremur keppendum sem sendir voru frá Íslandi á þetta mót. Svo er fyrrnefndur Ingimar líka úti en hann er orðinn formaður borðtennissambandsins. Það er bara frábært að vera með tvo frá BH í landsliðinu,“ segja bræðurnir stoltir en bæta við að íþróttin hafi átt undir högg að sækja á Íslandi.
„Íslenskur borðtennis hefur því miður ekki verið hátt skrifaður í gegnum tíðina. Ef við skoðum bara Norðurlöndin, þá töpuðum við t.d. fyrir Grænlandi nýverið og erum töluvert á eftir þjóðum eins og Danmörku og Svíþjóð. Það hefur kannski vantað aðeins upp á að halda betur utan um hlutina. Það finnst öllum gaman að spila borðtennis og það eru borðtennisborð í flestum skólum og félagsmiðstöðvum á landinu. Það hefur hins vegar vantað góðan strúktúr í kringum þetta og að ná einhverjum krökkum inn í sportið. Það eru bara of fáir sem spila borðtennis á Íslandi og gott dæmi um það er sú staðreynd að Færeyingar eiga fleiri iðkendur en við, þrátt fyrir að vera miklu færri.“

Íslandsmeistararnir sigurreifir. Mynd: BH

En hvaða eiginleikar eru mikilvægastir hjá þeim sem ætla sér langt í borðtennis?
„Þolinmæði er mikilvæg þegar fólk er að stíga sín fyrstu skref í borðtennis. Kúlan gengur ekkert sérstaklega vel á milli í upphafi ferilsins en um leið og fólk kemst yfir þennan byrjanda-þröskuld, þá er þetta ótrúlega gaman. Svo er þetta kannski ekkert frábrugðið öðrum íþróttum að því leyti að menn þurfa að hlusta á þjálfarann, vera með góðan leikskilning og snerpu. Einhversstaðar las ég að borðtennis og golf eru þær íþróttir þar sem iðkendur fara helst út af sporinu andlega. Það er bara allt undir og þú hefur bara sjálfan þig til að koma þér á áfangastað,“ segir Pétur.

Aðstaðan lykilatriði og framtíðin er björt
„Aðaláherslan okkar í BH hefur alltaf verið á krakka og unglinga. Þar sjáum við helst okkar samfélagslegu ábyrgð og setjum mesta púðrið í það starf. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá krakka sem byrjuðu hjá okkur fyrir nokkrum árum, vera orðnir þroskaðir og góðir meistaraflokksleikmenn. Magnús Gauti er t.d. uppalinn í BH og er núna orðinn Íslandsmeistari. Við erum því komnir með topp leikmenn í klúbbinn og svo eru bara allir styrkleikar þar undir. Nýlega bættum við tíma í æfingatöfluna á þriðjudagskvöldum fyrir svokallaðan „bumbuhóp“ þar sem menn á besta aldri hittast og spila nokkuð frjálst í 90 mínútur. Þetta hefur mælst vel fyrir og mætingin hefur verið mjög góð,“ segir Jóhannes.
„Við erum mjög heppin að hafa fengið aðstöðu í litla salnum í Strandgötunni og þar fáum við að hafa borðin tilbúin öllum stundum. Það breytir einfaldlega öllu að þurfa ekki endalaust að setja saman borðin og taka svo niður í lok æfingar. Slíkt fyrirkomulag hefði líklega aldrei skilað þeim árangri sem hefur náðst og þetta var vendipunktur fyrir BH að fá þessa aðstöðu í Strandgötunni. Salurinn var ekki í mikilli notkun og við þrýstum bara á að komast þarna inn.“

En hvernig sjá Pétur og Jóhannes framtíð BH fyrir sér eftir frækinn sigur í Strandgötunni?
„43 ára sigurganga! “ svara bræðurnir strax hlæjandi. “Það var extra sætt að landa þessum titli á okkar heimavelli í Strandgötunni og umgjörðin var algjörlega til fyrirmyndar hjá BH. Ég held að það megi fullyrða að umgjörðin hafi verið sú besta sem sést hefur í sportinu hér á landi.

Kvennastarfið innan BH mun taka stórt stökk upp á við á næstu árum en mikill metnaður er innan BH að auka þátttöku kvenna í starfi félagsins.
„Það er mikill fjöldi af ungum og efnilegum stelpum að æfa hjá okkur og það er ekkert fjarstæðukennt að sjá fyrir sér að eftir 1-2 ár muni BH eiga meistara líka í kvennaflokki. Við munum leggja mikla áherslu á að efla kvennastarfið innan BH á komandi árum. Það er svolítill kynjahalli hjá okkur í augnablikinu en við höfum mikinn áhuga á að breyta því. Hafnarfjarðarbær veitti okkur t.d. jafnréttisstyrk nýverið vegna þess að hlutfallslega fjölgaði stelpum meira en strákum í félaginu. Vonandi getum við nýtt okkur þann meðbyr og fengið fleiri konur inn í starfið hjá okkur,“ segir Jóhannes.

Pétur og Jóhannes segja borðtennis oft vera frábæra lendingu fyrir krakka sem eru að leita sér að íþrótt sem henti þeim vel.
„Við sjáum mjög oft krakka koma í borðtennis sem hafa ekki fundið sig alveg í öðrum íþróttum. Foreldrar hafa verið að setja þau í liðsíþróttir en það eru einfaldlega ekki allir sem fúnkera vel í liði. Okkar skilaboð til foreldra eru þau að leyfa krökkunum sínum að prófa borðtennis og sjá hvort að þau finni sig ekki í þessari skemmtilegu íþrótt,“ segja bræðurnir að lokum.