Jónína Ólafsdóttir og Margrét Lilja Vilmundardóttir eru nýjustu prestarnir í Hafnarfirði og einu kvenprestarnir. Þær eru fæddar með um árs millibili á miðjum níunda áratug síðustu aldar og eru báðar fjölskyldumanneskjur sem hafa mörgum hnöppum að hneppa samhliða störfum sínum. Margrét Lilja þjónar í Fríkirkjunni og Jónína í Hafnarfjarðarkirkju. Ritstjóri Hafnfirðings ræddi við þær um verkefnin, áskoranirnar, sjálfsþekkinguna og stöðu og hlutverk kirkna í nútímasamfélögum. 

Jónína Ólafsdóttir í einni af kirkjum þar sem hún hefur þjónað. Mynd í einkaeigu.

Jónína er ættuð úr Þingeyjasýslu og foreldrar hennar búa í Ljósavatnsskarði, þar sem faðir hennar er skólastjóri Stórutjarnaskóla og móðir hennar kennari þar. „Ég var kennarabarn sem átti líklega að verða kennari en ég þar var dálítill uppreisnarseggur í mér og tók BA-próf í íslensku og í framhaldi af því í guðfræði. Mig langaði alltaf að verða prestur, alveg frá því ég var lítil. Ég man eftir staðnum þegar ég fékk þessa köllun. Ég var stödd í sveitakirkju að Hálsi í Fnjóskadal á jóladegi. Presturinn var að tóna og predika og ég hugsaði að þetta skyldi ég gera þegar ég yrði stór. Ég þjónaði fyrst einn vetur á Dalvík árið 2019 og var í tæpt ár á Akranesi. Ég tók stuttan landsbyggðarrúnt og það var stór áskorun og ég lærði ótal margt,“ segir hún og leggur áherslu á að í starfinu sameinist líka áhugasvið hennar og styrkleikar. „Mér finnst gaman að syngja og tóna, skrifa og flytja ræður og vera með fólki. Kosturinn við þetta starf er fjölbreytnin og það er ekki hægt að verða leið þótt hægt sé að vera þreytt. Það fer eftir því hvernig ég tækla aðstæðurnar sjálf. Svo er líka áhugavert að stundir sem maður heldur að séu erfiðastar eru það ekki. Jarðarfarir eru t.d. bara formfastar athafnir og prestar í ákveðnu hlutverki þar.“ 

Fellir alltaf tár í skírnum

Margrét Lilja tekur undir þetta og segir að presturinn þurfi að vera yfirvegunin í aðstæðunum og hafa skýran ramma yfir það sem gera skuli. „Eftir athöfnina er hægt að vera þreytt en ekki á meðan. Þessu hefur verið lýst einhvern veginn þannig að presturinn þarf að vera „eina edrú manneskjan“ á svæðinu og það er pínulítið þannig. Maður finnur til samkenndar með fólkinu en okkar hlutverk er fyrst og fremst að koma öllum eins hlýlega og fallega í gegnum reynsluna og hægt er.“ Þvert á það sem margir eflaust halda séu hjónavígslur hins vegar oft flóknari athafnir því þrátt fyrir að gleðin sé mikil, er spennustigið og væntingastuðulinn hár, eðlilega. „Svo eru skírnirnar svo dásamlegar stundir þar sem mig langar nánast alltaf að taka börnin með mér heim því þau eru svo yndisleg. Ég felli eiginlega alltaf tár í skírnum þegar ég eys vatninu á kollinn á börnunum og þau gráta. Þá hvísla ég: „Æ fyrirgefðu,“ segir Jónína með samúðarsvip og brosir. 

Margrét Lilja og börn hennar. Mynd í einkaeigu.

Föðurfólk Margrétar Lilju er frá Króki í Garðaholti, rétt við bæjarmörk Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Það er litli bærinn sem nú er safn. „Ég segist oft vera að þriðjungi hluta Hafnfirðingur, þriðjungi Vopnfirðingur, því þar ólst ég upp og svo bjó ég sjö ár í Súðavík. Foreldrar mínir búa hér í Hafnarfirði og svo núna ég og mín fjölskylda líka. Það var meðvituð ákvörðun að flytja hingað eftir árin okkar fyrir vestan, okkur líður mjög vel hér og börnin blómstra. Hér eru þau frjáls og þeim líður vel,“ segir Margrét Lilja.  

Margrét Lilja ásamt eiginmanni sínum, Pétri Markan og yngstu dóttur. Mynd í einkaeigu.

Mikilvægt að setja skýr mörk 

Verandi fjölskyldumanneskjur með öllu sem því fylgir eru Margrét Lilja og Jónína spurðar hvort ekki sé erfitt fyrir presta að aðskilja vinnu og einkalíf. „Það getur verið erfitt að setja skýra línu um hvenær við erum í vinnunni og hvenær ekki. Stundum þarf ég bara að taka frá tíma fyrir mig, nánast eins og að bóka viðtal. Bóka þá sjálfa mig í viðtalið og get í staðinn boðið fólki að koma fyrr eða síðar eða benda á hina prestana. Það er eiginlega eina leiðin. Börnin þurfa líka á okkur að halda en starfið verður samt svona dálítið lífið manns og öll fjölskyldan tekur þátt í því,“ segir Margrét Lilja. Jónína tekur undir þetta og nefnir líka að það sé tvennt ólíkt að vera prestur á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landi. „Þar er maður presturinn, með greini og endar kannski óvart í sálgæsluhlutverki þegar farið er út í búð að kaupa í matinn. Það er mjög heillandi á margan hátt að spjalla við fólk en maður verður að passa sig á að brenna ekki upp við að heilsa öllum, vera hress og gefa endalaust af sér. Við verðum að geta leyft okkur að eiga erfiðan dag í friði og setja skýr mörk.“ „Það er hægt að gera það fallega og fólk skilur það alveg. Þegar ég var sveitastjórafrú í Súðavík í sjö ár og líka ritstjóri bæjarblaðsins Bæjarins besta, formaður Rauða krossins, eiginkona og mamma, þurfti ég að skilja á milli margra hlutverka og það var oft snúið,“ segir Margrét Lilja og hlær dátt. Fyrir henni er Fríkirkjan nokkurs konar sveitakirkja. „Ég hjóla í vinnuna og fer í sund og heita pottinn á leiðinni heim og rekst þar jafnvel á fermingarbarn, foreldri eða einhvern sem var í sálgæslu. Hafnarfjörður er smábær í þeim skilningi. Það kann ég alveg ótrúlega vel við.“

Margrét Lilja og Jónína segja mikið starf í kirkjunum og langt frá því að þær séu óþarfar. Mynd/Eva Ágústa

Fólk sækir í jafnvægi og andlega vellíðan

Í samfélaginu og fjölmiðlum er oft talað um flótta úr þjóðkirkjunni, m.a. út frá tölfræðilegum upplýsingum. Hvað finnst Jónínu og Margréti Lilju um það? „Það eru breyttar aðstæður í þjóðfélaginu. Þegar ég var lítil lærði ég meira um trúarbrögð í skóla en börn í dag. Mér finnst krakkarnir koma með annan grunn í fermingarfræðsluna en eru svo tilbúin og móttækileg fyrir fræðslunni. Það er mikið og öflugt starf í kirkjunni og fullt af fólki sem sækir þjónustuna. Maður heyrir svo mikið um að það sé fámennt í kirkjum landsins en það er alls ekki þannig. Fríkirkjan leggur mikið upp úr því að hafa hátt þjónustustig og ég held að í kirkjum almennt sé hugsað út frá því. Allir geta sótt kirkjur á sínum forsendum. Það er mikil fjölgun í söfnuðinum hjá okkur og þess vegna kom ég inn sem þriðji prestur. Fólk sækir í jafnvægi og andlega vellíðan og finnur slíkt í kirkjunni,“ segir Margrét Lilja. Jónína tekur undir þetta og segir að það sé dálítið blásið upp að það sé lítið í gangi í starfi kirkna og þær verði jafnvel æ meira óþarfar. „Það er svo margt í starfinu hjá okkur sem er ekki sýnilegt. Við tökum mjög mörg sálgæsluviðtöl, sinnum útförum og eftirfylgni með fólki sem hefur misst. Svo eru það fundirnir með fólki í tengslum við skírnir, fermingar og aðrar athafnir, auk sóknarfunda og símtala og höldum utan um reksturinn. Þetta krefst allt mikils skipulags.“

Jónína ásamt börnum sínum tveimur. Mynd í einkaeigu.

Með framhaldsmenntun í sálgæslufræðum 

Spjallið fer í framhaldi af þessu inn á misjöfn áhugasvið eftir prestum. Jónína segir að henni finnist sálgæsla t.a.m. mjög áhugaverð og að hún sé með framhaldsmenntun í sálgæslufræðum. „Það hefur nýst mér mjög vel. Það er misjafnt eftir styrkleikum hvers og eins prests hvaða áherslur viðkomandi leggur á. Sumir eru sérfræðingar í barna- og æskulýðsstarfi og þá er bara frábært að menn keyri á því. Næsta vetur ætlum við í Hafnarfjarðarkirkju t.a.m. að efla eldri borgara starf og helgistundir í hádeginu; helst að bjóða upp á súpu. Ég held fyrst og fremst að við eigum að hvíla í okkur sjálfum og vera við sjálf. Annað hvort kemur fólk eða ekki eða velur þá aðra kirkju. Það er ekki gott að troða sér inn á fólk.“ 

Samkeppni og kærleiksþjónusta eiga ekki samleið

Margrét Lilja segir að í þessu ljósi, ef maður getur verið maður sjálfur, þá finnist fólki gott að koma og líka að styrkleikar og einkenni kirknanna þurfi ekkert að vera eins. „Í Fríkirkjunni er t.d. mikið og öflugt fermingarstarf. Sunnudagaskólinn gengur fyrir hjá okkur á sunnudögum og svo röðum við annarri dagskrá út frá honum. Kannski byggir önnur kirkja á starfi eldri borgara eða einhverju öðru. Fólk finnur sína kirkju. Ég skírði 14 ára fermingarstúlku í sl. viku og hún hafði sjálf valið kirkjuna og hvernig dagurinn yrði. Það var svo gaman að fylgjast með henni.“ Jónína segist alltaf hafa verið hlynnt því að kirkjur sameini krafta sína og skiptist á að fara í heimsóknir og fara á milli í kaffi. „Við erum ekki keppinautar. Það yrði skrýtið að boða kærleiksþjónustu en standa samt í samkeppni. Ég hef aldrei verið keppnismanneskja. Það fer svo mikil orka í slíkt.“ María Lilja tekur undir þetta og bætir við að kirkjur hafi ákveðnu hlutverki að gegna sem sé kærleiksþjónusta og það sé lítill eða enginn munur á kenningagrunni Fríkirkjunnar og Þjóðkirkjunnar. „Þótt ég sé metnaðarfull þá er ég glöð þegar öðrum gengur vel. Við erum heldur ekki einu prestarnir í okkar kirkjum. Í Fríkirkjunni eru þrír ólíkir prestar og það er gott því þá finnur fólk vonandi þann prest sem þeim hentar. Það sama á við um Hafnarfjarðarkirkju, þar sem prestarnir eru tveir, af sínu hvoru kyninu og kynslóðinni.“

Margrét Lilja ásamt börnum sínum á góðri stundu. Mynd í einkaeigu.

Leggur frá sér erfiðleikana og sækir þá svo síðar

Jónína bendir í framhaldi af þessu á að starfsfólk kirkna byggi upp starf sitt innbyrðis og þurfi að passa upp á að vera öruggt á því sviði. „Ég hugsa stundum að ef það væri meira að gera þá færi það líklega ekki vel. Það er meira að gera en fólk heldur og þó að með tímanum mótist ræðurnar og verklagið þá fer heilmikil orka í nærveru því við göngum inn í sorgarferli fólks og þurfum að vera í vissum gír til að standa okkur í því. Þegar við lærum sálgæsluna þá snýst hún fyrst og fremst um sjálfsþekkingu.“ Margrét Lilja bætir við að það gagnist henni á erfiðum dögum að ákveða einhvern stað á leiðinni heim þar sem hún „leggur frá sér“ erfiðleika þess dags. „Sama geri ég með það sem ég skil eftir heima áður en ég fer í vinnuna. Ég get svo sótt það aftur síðar.“ Jónína segir þetta heillaráð sem hún ætlar sjálf að taka upp hér eftir. 

Margrét Lilja við þjónustu í Fríkirkjunni. Mynd í einkaeigu.

Ætlaði aldrei að verða prestur

Þær stöllur tala báðar um að mikilvægt sé í starfi presta að eiga vini í öðrum söfnuðum til að leita til á erfiðum vinnudögum eða þegar verkefnin yfirþyrmandi. „Grundvöllur sem við þurfum alltaf að muna er að taka af okkur myndina út á við, fjölda safnaðarmeðlima og slíkt og hugsa bara um það sem samfélagið þarf á að halda hverju sinni. Hver er tilgangur minn? Það er að finna frið og ró og iðka kærleika í annarra garð og okkar. Við viljum efla þetta í hverri manneskju og geta gefið fólki af okkur,“ segir Jónína. „Ég finn í mínu starfi að fólk leitar til okkar til að finna næði. Það er svo mikið sem mæðir á fólki og því líður vel í kirkjunni af því að það er velkomið. Fólk fær hlýju og nærveru sem það kannski fær ekki annars staðar. Ég var um tíma kirkjuvörður í Víðistaðakirkju þegar ég var að læra til prests og það kom mér á óvart hversu mikið sálgæslustarf það er. Ég tók mikið með mér frá þeirri reynslu í það sem ég geri í dag. Ég ætlaði aldrei að verða prestur og fór á öðrum forsendum í guðfræðina. Það er ekki fyrr en ég var í fæðingarorlofi með dóttur mína í Súðavík að ég fann hvað ég saknaði þess að vinna innan kirkjunnar. Þá kom köllunin,“ segir Margrét Lilja. Jónína bætir við að endingu: „Já, lífið er bara ævintýri sem við erum sjálf að móta.“

Aðalmyndir af Jónínu og Millu: Eva Ágústa Aradóttir

Aðrar myndir í einkaeigu.