Það er dýrt fyrir íþróttafólk að vera í fremstu röð. Hafnfirska, fyrrum afreksíþróttakonan, Silja Úlfarsdóttir setti, ásamt Andra Úlfarssyni, á laggirnar vefsíðu sem vettvang fyrir verðandi Ólympíufara til að safna styrkjum. Það er Klefinn.is.

Á vefsíðunni gefst lesendum kostur á að fylgjast með ellefu íþróttamönnum úr sjö íþróttagreinum deila reynslu sinni. „Þarna er samfélag íþróttafólks sem leggur metnað sinn í að ná sem bestum árangri í sínu fagi og deilir því með okkur hinum,“ segir Silja, greinilega stolt af þessu unga afreksfólki. Hópurinn saman stendur af 11 íþróttamönnum. Meðal þeirra eru Hafnfirðingarnir Anton Sveinn McKee (SH) og Ingibjörg Kristín Jónsdóttir (SH) sem stefna á Ól, en eins og staðan er núna er Anton Sveinn sá eini sem hefur náð Ólympíulágmarkinu.

Anton Sveinn McKee, íþróttamaður Hafnarfjarðar 2019. Mynd/OBÞ
Ingibjörg Kristín Jónsdóttir. Mynd/Sundsamband Íslands.

Fjölbreytt vefsíða með fræðslu og þekkingu

Silja reyndi sjálf við lágmarkið á ÓL 2008 og var ekki langt frá því, en hún þekkir álagið að eltast við lágmarkið og kostnaðinn sem þessu fylgir. Hún segir að það hafi reynst erfitt fyrir íþróttamenn að fá styrki þar sem umhverfið á samfélagsmiðlum hafi breyst og mörg fyrirtæki leiti til áhrifavalda. „Klefinn var því stofnaður til að styrkja íþróttamenn en þau fá auglýsingatekjurnar af auglýsingunum. Við erum að vonast til að fyrirtæki sjá hag sinn í að kaupa auglýsingar á síðunni, en fyrirtæki geta valið hvaða íþróttamaður fær auglýsingatekjurnar. Einnig erum við að vinna með allskonar fleiri hugmyndir sem má nýta íþróttamennina og þennan netmiðil.” 

Skjáskot af hluta vefsíðunnar Klefans.
Einkennismerki Klefans.

Styrktaraðilar í formi auglýsinga

Ásamt íþróttafólkinu segir Silja að fjöldinn allur af gestapennum tengdum íþróttum gefi lesendum Klefans innsýn inn í sinn þekkingargrunn. „Klefinn veitir því öllum sem hafa áhuga á hreyfingu, íþróttum og að ná árangri tækifæri á að læra af reynslumiklum aðilum. Á sama tíma gefst íþróttamönnum tækifæri, í samstarfi við Klefann, að bjóða styrktaraðilum þjónustu í formi auglýsinga á síðunni og íþróttamönnum að koma sér á framfæri á meðan eltst er við Ólympíulágmörkin.“

Silja vill hvetja alla til að styrkja við verkefnið með því að bæta Klefinn.is á net heimsóknarlistann sinn, og fylgja þeim á instagram og facebook.