Leikstjórinn og handritshöfundurinn Höskuldur Þór Jónsson var með stillt á Rás 1 á fallegri vetrarnóttu þegar lagið Lónlí blú boj ómaði í útvarpinu. Hann fann í kjölfarið slitna og rispaða plötu í kassa hjá föður sínum með Ðe Lónlí Blú Bojs og þá var ekki aftur snúið. Hann heillaðist af nafni hljómsveitarinnar og lögunum og hóf að skrifa handritið að sýningu sem slegið hefur í gegn á fjölum Bæjarbíós, undir sama nafni: ðe lónlí blú bojs.

Auk Höskuldar hefur hópur ungs og kraftmikils fólks náð að skapa söngleik sem er gefur stóru uppfærslunum á stóru sviðum landsins ekkert eftir. Fagmennskan endurspeglast skýrt í sterkum röddum, flottum leik, góðri tónlist og frábærum húmor. Hlutverkin í sýningunni eru í höndum Inga Þórs Þórhallssonar, Mímis Bjarka Pálmasonar, Vilbergs Andra Pálssonar, Styrs Orrasonar, Jóns Svavars Jósefssonar, Öglu Bríetar Einarsdóttur og Berglindar Öldu Ástþórsdóttur. Þrátt fyrir ungan aldur hafa meðlimir hópsins heilmikla reynslu af leik, söng, dagskrárgerð, uppsetningum og ýmsu fleiru. Óhætt er að mæla með þessari sýningu, sem næst fer fram næstkomandi sunnudag, 18. ágúst. Fjarðarpósturinn kíkti á sérstaka sýningu fyrir eldri borgara og þar skein gleðin úr hverju andliti og gestir söngluðu margir hverjir lögin á leiðinni út. Þetta er þó klárlega sýning fyrir alla fjölskylduna. Hver kannast ekki við smelli eins og Harðsnúna Hanna, Heim í Búðardal og Diggi liggi ló?

Sýninga- og framleiðslustjóri er Máni Huginsson, tónlistarstjóri Kristján Sturla Bjarnason og Brynjar Unnsteinsson. Söngstjórn er í höndum Ásgríms Geirs Logasonar, ljósahönnun Pálma Jónssonar og hljóðhönnun Þórðar Gunnars Þorvaldssonar. Leikmynd gerði Höskuldur Þór og sviðsmaður er Karla Kristjánsdóttir.

Hægt er nálgast miða á sýninguna á miði.is.

Leikararahópurinn.

Hljómsveitin ðe lónlí blú bojs.

Það er óhætt að segja að Berglind Alda Ástþórsdóttir eigi stórleik í sýningunni. Persónan er afar eftirminnileg og vekur upp hlátrasköll um allan sal.