Hafnarfjarðarbær býður nú upp á örspjall við eldri borgara, í samstarfi við starfsfólk hjá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði sem sjá um að hafa samband við sitt fólk.

Starfsfólk matarþjónustu og heimaþjónustu eru þessa dagana að hafa samband við þá sem eru ekki í Félagi eldri borgara en í heild snertir verkefnið rúmlega 350 manns. Eldri borgarar sem mættu reglubundið í mötuneyti sveitarfélagsins var strax við lokun boðið upp á heimsendingu matar og þjónustan þannig víkkuð út til að mæta breyttum aðstæðum.

Kemur í staðinn fyrir hefðbundið félagsstarf

Þjónusta við eldri borgara í Hafnarfirði er allajafna fjölbreytt, bæði inn á heimilum og utan þeirra. Eftir að samkomubann var fyrst sett á í byrjun mars var ákvörðun tekin um að fella tímabundið niður félagsstarf eldri borgara og loka sameiginlegum mötuneytum til að gæta fyllstu varúðar og öryggis. Heimaþjónusta; heimilisþrif, félagslegur stuðningur og aðstoð við innkaup, hefur að mestu haldist óskert en heldur hefur dregið úr eftirspurn. Matarþjónusta er í boði fyrir alla þá eldri borgara sem vilja.

„Við viljum að fólkinu okkar líði vel“

„Eldri íbúar í Hafnarfirði eru greinilega mjög meðvitaðir um það að gæta fyllsta öryggis og varúðar og einhverjir sem hafa afþakkað þjónustu sem þeir hafa haft til að verja sig og heimili sitt. Við brugðum því á það ráð að hafa samband við okkar fólk símleiðis og erum þessa dagana að hafa samband við þá sem eru 85 ára og eldri og búa enn heima. Við viljum halda vel utan um eldra fólkið okkar og tryggja að þeir sem hafa fáa í kringum sig og vantar félagsskap á þessum ótrúlegu tímum fái hann. Við viljum að fólkinu okkar líði vel og að það hafi allt til alls,“ segir Sjöfn Guðmundsdóttir deildarstjóri stuðnings- og stoðþjónustu á fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðarbæjar.

Reynt að aðlaga þjónustuna að þörfum hvers og eins

Starfsfólk Sjafnar í heimaþjónustu hefur staðið vaktina frá upphafi Covid19 og lagt áherslu á uppstokkun og endurskipulagningu sinnar þjónustu í samstarfi við þjónustuþega. „Þrátt fyrir allt þá hefur starfið gengið ótrúlega vel og því bera að þakka frábæru starfsfólki sem hefur lagt sig fram við að finna leiðir sem henta hverjum og einum þannig að tryggja megi þjónustuna“ segir Sjöfn og vísar þeirra aðgerða sem átt hafa sér stað síðustu daga og vikur á tímum Covid19. „Hér er um að ræða dæmi um þjónustu við viðkvæman hóp sem þarf að haldast órofin á öllum viðbúnaðarstigum og við tökum hlutverk okkar alvarlega,“ segir Sjöfn að lokum.

Myndatexti/mynd frá Hafnarfjarðarbæ: Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri á hér gott spjall við Magnús Björnsson, 93 ára Hafnfirðing, sem er einn þeirra sem nýtir sér reglubundið skjáinnlit með starfsfólki bæjarins.