Í gærkvöldi hringdi í mig maður sem ég þekki ágætlega og hann hefur verið á öndverðum meiði í málefnum metoo og femínisma. Ég veit að hann er góður pabbi, eiginmaður, á dóttur og son og er þjálfari. Við ræddum fram og til baka umræðuna hvernig hún er, hversu mikilvæg og að það þurfi alltaf átök í einhvern tíma til að samfélagsbreytingar eigi sér stað. Þetta eru eiginlega nokkurs konar siðaskipti. Við vorum sammála um það.
Í símtalinu lögðum við okkur bæði fram við að skilja hvort annað og viðhorf okkar út frá sínu hvoru kyninu og ólíkum bakgrunni. Hann er að gera marga mjög góða og valdeflandi forvarnahluti í sínu starfi með börnum og unglingum og ég geri mitt besta líka í kennslunni og sem móðir. Við vorum líka sammála um að mikilvægast sé að vera góðar fyrirmyndir; ekki segja eitt og gera annað.
Þetta urðu mjög gefandi 90 mínútur þar sem bæði fengu svigrúm til að tala, rökræða og deila reynslu sem hefur mótað okkur. Ég áttaði mig á hans sjónarmiði og hann mínu og við enduðum einhvers staðar í miðju um það sem skiptir máli – að draga úr þoli samfélagsins gegn hvers konar ofbeldi, með sérstakri áherslu á kynferðisofbeldi um þessari mundir.
Ef sem flest gætu tekið eitt svona samtal á dag, þá yrðu það jafnvel tugþúsundir samtala. Á hverjum degi. Og við kæmumst mögulega hraðar nær því að átta okkur á því að þetta er ekki stríð á milli kynja eða kynslóða; femínista eða jafnréttissinna eða mín og þín.
Olga Björt Þórðardóttir. Móðir, systir, dóttir, frænka og vinkona. Eigandi Hafnfirðings og stundakennari í Öldutúnsskóla.
Við hjá Hafnfirðingi tökum að sjálfsögðu á móti aðsendum greinum í ritstjorn@hafnfirdingur.is. Látið mynd fylgja með af greinahöfundi/um í góðum gæðum.