Hið geysivinsæla fyrirtæki Kjötkompaní var stofnað um það leyti sem Geir Haarde bað Guð að blessa Ísland. Þá voru tveir starfsmenn við afgreiðslu í húsnæðinu við Dalshraun 13, annar þeirra sjálfur eigandinn Jón Örn Stefánsson. Í dag er starfsemin á fjórum stöðum og starfsmenn eru orðnir fleiri en fjörutíu. Fjarðarpósturinn kíkti í heimsókn, en undirbúningur er á fullu fyrir afmælishátíð sem hefst í dag.

Eigendurnir Jón Örn og Hildur fyrir utan útibúið á Granda.
Hjónin Jón Örn og Hildur Guðmundsdóttir höfðu undirbúið rekstur Kjötkompanís í fimm ár fyrir opnunina árið 2009. „Vörumerkið er eitt af börnunum okkar og okkur þykir ofsalega vænt um það. Það er ótrúlegt að hafa náð þessu flugi á 10 árum. Við fórum í margar skoðunaferðir víða um heim til landa með ólíka menningu. Meginmarkmiðið var að finna út hvernig hægt væri að skapa þannig aðstæður fyrir viðskiptavini að þegar þeir kæmu til okkar fengju þeir sömu upplifun og á háklassa veitingastað,“ segir Jón Örn og stoltið leynir sér ekki.

Eigum við að ræða eitthvað úrvalið og gæðin?
Starfsfólkið í sérflokki
Starfsemin á þessum tíu árum hefur að sögn Jóns Arnar þróast í takt við tíðarandann hverju sinni og væntingar viðskiptavina. „Við erum með mjög stóran, breiðan og traustan hóp viðskiptavina sem okkur þykir mjög vænt um. Fólk kemur sumt langt að til að kaupa helgarsteikina og það er jafnvel hluti af helgarrúntinum að koma við hjá okkur.“
Þá hafa Hildur og Jón Örn verið ófeimin og metnaðarfull við að prófa eitthvað nýtt, grípa hugmyndir og afla sér upplýsinga til að bæta úrval, þjónustu og upplifun viðskiptavina. „Plönin hafa gengið eftir þessi 10 ár og við höfum haldið dampi í gæðum. Þetta snýst um að vera vel vakandi fyrir nýjungum. Við förum í vísindaferðir a.m.k. einu sinni á ári og þá kvikna oft hugmyndir sem við stílfærum fyrir íslenskan markað. Starfsfólkið okkar er líka í sérflokki og við erum með marga fagmenn og meistara innanborðs. Einnig erum við mjög stolt af fyrsta nemanum okkar í kjötiðn sem útskrifast í vor en það er Jóhann Freyr Sigurbjarnason og gaman að segja frá því að hann vann síðustu nemakeppni í kjötiðn. Við höfum lagt áherslu á að vera eins og ein stór fjölskylda með léttleika í bland við öguð vinnubrögð.“

Afar fjölbreytt úrval af matvöru fæst í Kjötkompaní.
Afmælishátíð Kjötkompanís fer fram í og við Dalshraun 13, frá fimmtudegi til laugardags. Nokkur grill verða í gangi með allskyns kræsingum. Svo mun Júlladiskó sjá um fjör og flotta stemningu og bræðurnir Jón Jónsson og Frikki Dór kíkja við og taka lagið.

Bræðurnir Jón og Frikki Dór munu taka lagið á hátíðinni. Mynd: Bergdís Norðdahl.
Aðrar myndir í eigu Kjötkompanís.